135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[17:53]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög gott að við skulum taka þetta mál til umfjöllunar með þeim hætti sem hér er gert og ég fagna þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsætisráðherra gaf hér vegna þeirrar umfjöllunar í ræðu sinni áðan.

Það var þarft verk að taka mál Breiðavíkurheimilisins til umfjöllunar eftir að vakin hafði verið athygli á því að ýmislegt hefði getað misfarist eða hefði misfarist í störfum þess heimilis á árum áður. Ég tel að hárrétt hafi verið brugðist við af hálfu stjórnvalda með því að setja lög nr. 26/2007 og skipa síðan nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn eins og þar er talað um þó að hér fjöllum við sérstaklega um starfsemi Breiðavíkurheimilisins á árabilinu 1952–1979. Lögin voru heimildarlög sem forsætisráðherra nýtti með þeim hætti að skipuð var nefnd með víðtækar valdheimildir svo sem lögin kveða á um.

Ég get ekki annað séð en sú skýrsla sem hér liggur fyrir og við erum að fjalla um sé mjög vel og faglega unnin. Því ber að fagna að staðið skuli vera að skýrslugerð með þessum hætti og ég vek athygli á að nefndin var skipuð þann 2. apríl 2007 og því er um mjög hröð og góð vinnubrögð að ræða. Ég tek undir þakkir forsætisráðherra til nefndarinnar og ég tel líka ánægjulegt og vil láta það koma fram að það er meiningin að nefndin starfi áfram og að allir nefndarmenn eru reiðubúnir til að starfa áfram í málum sem varða tengd efni, málum sem varða börn og ungmenni og vistun þeirra á meðferðarheimilum.

Varðandi þá skýrslu sem hér er til umræðu þá hefur verið fjallað um ýmis atriði í henni af þeim sem hér hafa talað áður og ég vísa til þess. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á áðan, þ.e. varðandi þá sérfræðinga sem komu að málinu þegar það var til umfjöllunar áður en Breiðavíkurheimilið varð að veruleika og hvað þeir sérfræðingar höfðu um þau mál að segja þá og þær athugasemdir sem þeir höfðu fram að færa varðandi það að stofna meðferðarheimili eins og þarna var um að ræða. Þar var um að ræða mjög gildar athugasemdir og mjög gild varnaðarorð sem ekki var hlustað á. Í ljósi reynslunnar sjáum við að þau varnaðarorð áttu fullan rétt á sér. Þar voru sérfræðingar að fjalla um mál þar sem í raun hefði átt að taka meira tillit til og fara eftir áliti þeirra. Hefði það verið gert hefði verið komist hjá vandamálum sem varð ekki komist hjá vegna þess að niðurstaðan er sú þegar málið er skoðað í heild sinni að það hlutu alltaf að koma upp vandamál. Það hlutu alltaf að verða vandamál sem leiddu til þess að ungir drengir sem voru vistaðir þarna langdvölum fjarri foreldrum sínum, rótslitnir frá umhverfi sínu, urðu fyrir verulegu hnjaski til langframa. Umbúnaðurinn var slíkur, það var ekki hjá því komist.

Okkur hættir oft til að reyna að varpa sökinni á ákveðna einstaklinga, að halda því fram að þessi eða hinn hefði getað gert betur og málum sé komið þannig vegna þessa en í þessu tilviki var að mínu viti ekki við ráðið. Hugmyndin var röng, aðferðafræðin var röng.

Að öðru leyti varðandi það sem kemur fram í skýrslunni þá finnst í fyrsta lagi mjög athyglisvert með hvaða hætti nefndin tekur og skilgreinir það viðfangsefni sem um er að ræða og að nefndin skuli hafa náð að hafa samband við meiri hluta þeirra sem dvöldu á Breiðavíkurheimilinu. Það finnst mér sérstakt afrek. Viðhorf þeirra eru rakin að mestu leyti. Það sem mér finnst líka athyglisvert og vert að vekja athygli á er að þarna voru börn og unglingar vistuð allt upp í fimm og hálft ár samfleytt á heimilinu. Þá kemur einnig fram, sem er líka athyglisvert, að meiri hluti þeirra sem störfuðu með beinum eða óbeinum hætti að málefnum Breiðavíkurheimilisins, hvort sem um var að ræða starfsmenn á heimilinu eða fulltrúa barnaverndaryfirvalda, leituðust eftir bestu getu að vinna störf sín og oft og tíðum við erfiðar aðstæður. Þetta kemur fram og er fjallað um í úttekt nefndarinnar og síðan er fjallað um það frekar með hvaða hætti, í ljósi þess lögboðna hlutverks sem um var að ræða eða þess lagaramma sem um var að ræða, að var staðið. Á bls. 20 í því nefndaráliti sem ég hef undir höndum, er sagt m.a.:

„Hér má í fyrsta lagi nefna að af gögnum virðist mega ráða að framan af því tímabili sem Breiðavík var starfandi, einkum á árunum 1952 til 1963–1964, hafi húsakostur, byggingar og ýmis aðbúnaður vart verið fullnægjandi fyrir þá starfsemi sem þar var rekin.“

Þótt húsakostur og byggingar og ýmis aðbúnaður hafi ekki verið með þeim hætti að fullnægjandi væri var samt sem áður farið af stað og vistheimilið stofnað og ungir drengir voru þar til lengri dvalar. Þá kemur líka fram að grunnmenntun vistmanna var ekki sinnt sem skyldi. Það liggur fyrir og kemur reyndar fram í því nefndaráliti sem um ræðir að nauðsynlegt sé að brugðist verði við því í framtíðinni vegna þess að allar svona skýrslur eru fyrst og fremst ákveðin viðmið og ákveðnir vitar til að benda okkur á hvað við getum gert betur í framtíðinni. Það er ekki endilega verkefnið að hneykslast á því sem miður fór heldur að læra af því sem gerðist og gera betur í framtíðinni. Það er eitt sem greinilega hefur skort á og það er að sinnt væri nægilega vel menntunarþörf þeirra vistmanna sem voru á Breiðavíkurheimilinu. Það kemur fram víða í skýrslunni að svo hafi ekki verið, alla vega dreg ég þá ályktun af því sem þar kemur fram.

Þá er einnig fróðlegt að lesa um með hvaða hætti og hvernig málsmeðferð var hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur, en flestir drengjanna komu frá Reykjavík, þar sem ég fæ ekki betur séð en í mörgum tilvikum hafi ekki verið farið nákvæmlega að þeim lögum sem giltu varðandi vistun á heimilinu. Umfjöllun nefndarinnar um það hvort börnin í Breiðavík hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi er líka mjög athyglisverð. Mér finnst óþarfi að rekja það í sjálfu sér en nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að um slíkt hafi verið að ræða, að samkvæmt þeirri skilgreiningu sem nefndin gerir hafi í ýmsum tilvikum verið um að ræða illa meðferð og ofbeldi sem er alvarlegur áfellisdómur sem við getum ekki horft fram hjá.

Þá er vikið að geðheilbrigðisþjónustu en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði því atriði mjög góð skil. Símon Jóhannes Ágústsson sálfræðingur gerði ítrekaðar athugasemdir, talaði um og ræddi með hvaða hætti koma þyrfti fram og gæta hagsmuna vistmanna sem voru í Breiðavík. Þá er mjög athyglisvert að lesa um rannsókn Gísla H. Guðjónssonar þar sem hann gerir ákveðna úttekt á því starfi sem um er að ræða og hann kemst að þeirri niðurstöðu að árangur vistunar á Breiðavíkurheimilinu á árunum 1953–1970 hafi ekki verið ásættanlegur og segir síðan að ljóst sé að margir drengjanna hafi átt í verulegum vanda með að aðlaga sig að samfélaginu að vistun lokinni. Þetta er sem sagt niðurstaðan sem liggur fyrir varðandi árin frá 1953–1970. Skýrsla Símonar Jóhannesar Ágústssonar er líka athyglisverð þar sem þar er iðulega tekið fram að vistun drengjanna var í sjálfu sér ekki alltaf spurning um hvort það væru einhver vandamál með þá sem slíka heldur var hún iðulega vegna aðstæðna á heimilum þeirra. Þá er vikið að því í skýrslu Símonar Jóhannesar að ýmsar barnaverndarnefndir hafi ekki hirt um að láta rannsaka suma drengina hvorki sálfræðilega né heilsufar þeirra að öðru leyti þótt þess hafi verið kostur. Það kemur því fram að það skortir verulega á að fylgt hafi verið þeim reglum sem giltu um börn og ungmenni á þeim tíma sem þarna er um að ræða.

Ég fagna því sem kemur fram varðandi frekari kannanir nefndarinnar miðað við heimildarákvæði í lögum nr. 26/2007. Þá komum við að spurningunni um skaðabótaábyrgð, hvort um hana geti verið að ræða og hvernig með það skuli fara, vegna þess að ég get ekki merkt annað en að þeir sem hér hafa talað á undan mér séu sammála um að það beri að gera það sem hægt er til að bæta það tjón sem vistmenn á Breiðavíkurheimilinu hafi orðið fyrir. Þá er spurningin: Hvernig verður það gert? Við verðum að sjálfsögðu að gæta þess þegar við fjöllum um mál eins og þessi að þá verður að taka tillit til þess þjóðfélagsumhverfis sem var fyrir hendi þegar Breiðavíkurheimilið starfaði. Við getum ekki klippt það beint inn í nútíðina og mér finnst það einmitt kostur hvernig nefndin sem vann þessa skýrslu hefur farið að því. Mér finnst hún vera í mjög miklu jafnvægi þannig að það er gert mjög vel grein fyrir um hvaða lagaramma var að ræða og hvaða viðmiðanir áttu að vera.

Varðandi tillögur nefndarinnar um skaðabótaábyrgð þá velti ég því fyrir mér hvernig rétta eigi hlut þeirra einstaklinga sem þarna er um að ræða og geta átt þann rétt. Ef við erum að tala um skaðabótaábyrgð þá er alltaf spurning um sök, hvort einhver beri ábyrgð og með hvaða hætti. Þá komum við að spurningunni um orsakasamhengi og hvort við séum þá ekki líka að fjalla um ákveðinn miska sem viðkomandi hafi orðið fyrir og taka beri tillit til.

Loks er annað atriði sem vikið er að í skýrslu nefndarinnar og það varðar geðheilbrigðisþjónustu sem mér finnst kannski ekki hafa komið nægilega mikið inn í umræðuna eða umfjöllunina, þ.e. að þarna eru margir einstaklingar sem þurfa virkilega á aðstoð að halda, ekki bara fjárhagslegri heldur líka víðtækari aðstoð. Þetta þurfum við einnig að skoða.

Virðulegu forseti. Við erum að fjalla um skýrslu sem snertir einstaklinga, drengi sem voru vistaðir ungir á Breiðavíkurheimilinu og nutu ekki þess atlætis sem nauðsynlegt var að veita þeim. Þeir voru rifnir upp og fluttir að jafnaði í fjarlægan landshluta, á framandi svæði fyrir þá flesta, fjarri fjölskyldum sínum og vinum, í vist með öðrum drengjum sem voru á mismunandi aldri. Þessi kostur gat aldrei gengið. Það hlutu að koma upp viðvarandi vandamál. Það var óhjákvæmilegt annað en að mistök yrðu gerð og að drengir á svo ólíkum aldri og þroska yrðu fyrir ítrekuðu og óeðlilegu áreiti eins og fram kemur í skýrslunni að hafi orðið. Það á að beina sjónum sínum að því að það voru yfirvöld sem báru ábyrgð á því sem gerðist í Breiðuvík. Umbúnaðurinn var slíkur að það gat aldrei tekist vel til. Þrátt fyrir að ljóst sé af lestri skýrslunnar að flestir þeir sem komu að forstöðu Breiðavíkurheimilisins og störfum þar hafi rækt starf sitt af kostgæfni og látið sér annt um vistmennina, þá var viðfangsefnið þess eðlis að það gat aldrei tekist vel til. Þess vegna er ábyrgð ríkisvaldsins óskoruð á því sem þarna gerðist. Ekki var gætt að því að drengirnir á Breiðavíkurheimilinu nytu þess atlætis sem þeir áttu að hafa lögum samkvæmt. Ég bíð eftir því að sjá tillögur ríkisstjórnarinnar um bætur til handa Breiðavíkurdrengjunum og tel mikilvægt að samfélagið geri vel við þá sem voru á sínum tíma vistaðir í Breiðavík, ekki eingöngu fjárhagslega heldur einnig að þeir fái þann aðbúnað sem þeim ber og eiga skilið Ég mun, virðulegi forseti, fyrir mitt leyti stuðla að sem hraðastri afgreiðslu slíkra tillagna.