135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[18:08]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn á undan mér þakka höfundum þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir fyrir vandað og gott starf, viðamikla skýrslu og góða meðferð og góða vinnslu á mjög vandasömu verkefni. Ég held að rétt sé að við höfum í huga í þessari umræðu að þegar þær ákvarðanir voru teknar sem skýrslugerðin byggir á var ekki sjálfgefið hvaða leið ætti að fara. Á fyrstu mánuðum síðasta árs, ársins 2007, var gríðarlega mikil umræða í þjóðfélaginu um vandamál sem tengdust Breiðavíkurheimilinu og ýmis sjónarmið voru uppi um það hvaða viðbrögð væru heppileg í því sambandi.

Eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu brást ríkisstjórnin við með þeim hætti að leggja til lagafrumvarp sem síðan varð að lögum sem gáfu heimild til skipunar rannsóknarnefndar til að fara yfir starfsemi heimila af þessu tagi, almenna heimild. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra þá nefnd sem hér hefur skilað skýrslu um Breiðavíkurheimilið. Þegar sú skýrsla er skoðuð og sú vinna sem þar hefur farið fram er metin tel ég ótvírætt að þar var farin skynsamleg leið í þessu sambandi, bæði af hálfu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma með því að velja þessa leið til að bregðast við umræðunni sem uppi var í þjóðfélaginu um Breiðavíkurheimilið og eins af hálfu nefndarinnar þegar hún mótaði sér verklag sitt og vinnubrögð en eins og komið hefur fram í umræðunni á undan var þetta ekki sjálfgefið. Það var ekki við fordæmi að styðjast hér á landi og tæpast við sambærileg mál að styðjast annars staðar, a.m.k. ekki þannig að hægt væri að leita beint í smiðju annarra um það hvernig með ætti að fara. Eins og ég sagði tel ég að vel hafi tekist til og við stöndum núna með afar vandað verk í höndunum, góða skýrslu sem gefur okkur tilefni til að ræða þessi mál af skynsemi og yfirvegun. Mér finnst umræðan í þinginu í dag bera þess merki að hún er æsingalaus en um leið í fullri alvöru vegna þess að viðfangsefnið er auðvitað alvarlegt. Viðfangsefnið er það að á tímabilum í sögu þessa heimilis áttu sér stað alvarlegir atburðir miðað við það sem fram kemur í skýrslunni. Það eru meiri líkur en minni taldar á því að um ofbeldi og misnotkun hafi verið að ræða og eins er ljóst, eins og aðrir ræðumenn hafa gert grein fyrir, að aðbúnaður var ófullnægjandi og eftirliti mjög ábótavant. Þetta eru auðvitað grafalvarlegir hlutir og nauðsynlegt að það sé haft í huga.

Hins vegar þegar við stöndum í þessum sporum, komin með skýrsluna í hendur, þá er auðvitað mikilvægasta viðfangsefni okkar að meta hvernig fara skuli með framhaldið. Hæstv. forsætisráðherra hefur þegar gert grein fyrir því að ríkisstjórnin hafi mótað sér ákveðna stefnu varðandi það og þar er annars vegar um að ræða mat á mögulegri bótaábyrgð og vinnslu frumvarps um það efni. Ég held að það sé nauðsynlegt. Í skýrslu nefndarinnar liggur fyrir greinargerð frá prófessor Viðari Má Matthíassyni sem er góður grunnur að slíku starfi og það er fagnaðarefni að hann hafi verið fenginn til þess að vinna slíkar tillögur áfram. Við munum því á næstu vikum vonandi sjá frumvarp sem felur í sér heimildir til að greiða bætur til þeirra sem um sárt eiga að binda vegna þeirra atburða sem þarna er fjallað um.

Það er auðvitað rétt eins og hv. síðasti ræðumaður, Jón Magnússon, nefndi að það er vandasamt og ekki alveg sjálfgefið hvernig staðið verður að þeim bótagreiðslum en þeim mun mikilvægara að vel sé vandað til undirbúnings þess máls og þegar málið kemur inn á borð allsherjarnefndar Alþingis verður það auðvitað tekið af mikilli alvöru af hálfu nefndarinnar.

Síðan er annað atriði sem hæstv. forsætisráðherra gat einnig um varðandi framhaldið á verkinu og það er athugun á starfsemi annarra vistheimila fyrir börn og ungmenni í fortíðinni, þ.e. hvort tilefni sé til að gera sambærilega úttekt á starfsemi þeirra og hér hefur verið gerð á Breiðavík. Það er fagnaðarefni að til stendur að forsætisráðherra gefi út nýtt erindisbréf til nefndarinnar um það að hún taki slíkt verkefni að sér og með sama hætti fagnaðarefni að það góða fólk sem vann verkið um Breiðavíkurheimilið er tilbúið til að vinna áfram að almennri athugun á starfsemi annarra heimila. Með því verki hefur verið lagður grunnur að vinnulagi og aðferðum sem nýtast munu í framtíðinni og þess vegna bindur maður vonir við að það verk muni skila góðum árangri.

Að lokum er svo þriðja atriðið sem er ekki síst mikilvægt, og hæstv. forsætisráðherra gat um líka í ræðu sinni, og það er að lærdómur sé dreginn af skýrslunni og allt sé gert sem núverandi stjórnvöld hafa í rauninni möguleika á til að koma í veg fyrir atburði af því tagi sem áttu sér stað í Breiðavík og aðstæður eins og þar voru, að slíkir hlutir endurtaki sig ekki. Það er fagnaðarefni að hæstv. félagsmálaráðherra ætlar að setja sérstaka skoðun í gang að því leyti, enda er það þannig að þó að við séum að tala um löngu liðna atburði ef svo má segja, hér er verið að tala um áratuga gömul tilvik, þá eru hætturnar auðvitað enn þá fyrir hendi. Það er alltaf hætta fyrir hendi þegar um er að ræða vistun einstaklinga sem eru annaðhvort á barnsaldri eða geta ekki talað fyrir sig eða eru í rauninni sviptir frelsi og sjálfræði með einhverjum hætti og það hlýtur alltaf að vera mikilvægt að tryggja eftir því sem unnt er að þeir verði ekki fórnarlömb með þeim hætti sem dæmi virðast vera um í þessu máli. Þess vegna er mikilvægt að bæði þessi skýrslugerð og sú umræða sem farið hefur fram í tengslum við þetta mál verði til þess að það verði skoðað og gert sem hægt er til að koma í veg fyrir að atburðir af þessu tagi endurtaki sig.