135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Við höfum orðið vitni að því í þessu máli að við fáum tilkynningu frá dómsmálaráðherra um það að hann ætli að breyta lögum. Hann kemur fram við Alþingi eins og hann ráði því einn og geti stjórnað því einn.

Við stöndum frammi fyrir því að það á að skipta þessu sýslumannsembætti upp í þrjár jafnvel fjórar einingar og það þarf að vera með stjórn í hverri einingu. Þetta verður miklu dýrara með þessu formi, að skipta þessu upp, heldur en það er í dag. Þetta er sennilega ein best heppnaða aðgerð fyrir 16 mánuðum að sameina toll, löggæslu og öryggisgæslu en nú horfum við upp á það að þessu verður að öllum líkindum skipt upp í fjórar einingar, löggæslu, toll og öryggisgæslu undir samgönguráðuneytið og síðast en ekki síst jafnvel sérdeild um landamæravörsluna. Það er ömurlegt að horfa upp á þetta. Fyrir nú utan það að fyrir 16 mánuðum, þegar embættin voru sameinuð, sýslumannsembættið í Keflavík og sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli, var loforðið á þann veg að almenn löggæsla yrði meiri á Suðurnesjum en er í dag. Talað var um að það ættu að vera sex lögreglubílar á svæðinu í gangi en þeir eru ekki nema fjórir og stundum jafnvel ekki nema þrír. Það þarf að skera niður. Það er búið að fækka um 20 lögreglumenn á svæðinu á síðustu þremur árum.

Fjárveitinganefnd fór á fund embættisins í haust og þar var henni gerð grein fyrir því að það vantaði meiri peninga en dómsmálaráðuneytið brást ekki við því í tillögum sínum.