135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þau alvarlegu mál sem nú blasa við, óeining um lögreglustjóraembættið í Keflavík, hafa valdið því að ég hef skrifað 1. þm. Suðurk., Árna Mathiesen, bréf og beðið um að þingmenn kjördæmisins komi saman, hitti lögreglustjórann og yfirmenn tollgæslunnar og lögreglunnar og enn fremur bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Hér er mjög stórt mál á ferðinni og mjög undarlegt mál. Það vekur grunsemdir um að maðkar séu í mysunni. Hvers vegna slíta menn í sundur fyrirtæki sem var stofnað fyrir 16 mánuðum og hefur vakið þjóðarathygli fyrir varnir og gæslu við Íslands fremstu dyr? Tekið á eiturlyfjabraski, unnið gegn glæpalýð, lögreglustjórinn og hans fólk verðlaunað fyrir afrek. Mig minnir að Stöð 2, sú gagnrýna stöð, hafi kosið þetta fólk menn ársins. Á sama tíma leyfir dómsmálaráðherra sér, sjálfsagt í samstarfi innan ríkisstjórnarinnar með fjármálaráðherra og fleirum, að slíta þetta allt í sundur, sundra fylkingu sem stendur vörð við Íslands dyr. Þarna er mikið uppnám. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði hér að hann hefði samvisku. Ég efast ekki um það. En ef hann greiðir lögunum atkvæði sem boðað er að fari í gegnum þingið þá er hann eins og fleiri samviskulaus. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um það mikla starf sem lögreglustjórinn, lögreglan, tollgæslan og öryggisgæslan á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík hafa unnið á 16 mánuðum. Þar standa varðmenn sem verða ekki dregnir niður í svaðið á þennan hátt og lögreglustjórinn verður ekki hrakinn frá því mikla starfi sem hann hefur verið að móta með þessum hætti.