135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér mætast stálin stinn í slagsmálum í beinni útsendingu á milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tala með breytingunni. Fulltrúar Samfylkingarinnar tala á móti henni, meira að segja hv. þm. Árni Páll Árnason gefur ekkert fyrir aðalrökin fyrir því að splitta upp þessum embættum, þ.e. að stokka þetta undir viðkomandi ráðherra. Gefur ekkert fyrir þau. Veigalítil rök, segir hv. þingmaður.

Ég spyr háttvirta þingmenn Samfylkingarinnar, sérstaklega hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Ætlar Samfylkingin að samþykkja þessar breytingar eða ekki? Er innstæða fyrir orðum Samfylkingarinnar? (Gripið fram í.) Eða ætlar Samfylkingin að gleypa þessar breytingar og samþykkja breytingar á lögum? Þá hefur Björn Bjarnason hæstv. dómsmálaráðherra unnið þetta mál algjörlega.

Ég ætla að minna hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem núna er í þröngri stöðu og ég geri mér grein fyrir því, að það er hættulegt að gefa falskar vonir í svona máli. Það er afar hættulegt að gefa lögreglumönnum og tollvörðum sem hafa unnið afar gott starf falskar vonir. Þessir hópar, eins og við þingmenn, margir hverjir, binda vonir við að ekki verði af þessum breytingum. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gefið þær vonir með yfirlýsingu sinni í gær og ítrekun hennar í dag.

Þannig að ég ætla að spyrja, virðulegi forseti, einu sinni enn: Ætlar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að standa við það sem hér hefur verið sagt? Ætlar hv. þingmaður að vinna gegn breytingunum eða ætlar hv. þingmaður einungis að gefa falskar vonir og lyppast niður á endasprettinum og samþykkja það sem væntanlega kemur frá hæstv. dómsmálaráðherra? Það teldi ég vera afar miður, virðulegi forseti.