135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í þeim kjarasamningum sem skrifað var undir fyrir stuttu, sem eru afskaplega skynsamlegir og góðir að mínu mati, var niðurstaðan sú að hækka lægstu laun mest og laun þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði undanfarinna ára. Talið var að um helmingur launþega fengi ekkert út úr þeim kjarasamningum.

Með tilliti til þess voru bætur til öryrkja hækkaðar eins og hér hefur komið fram, um 4% og 3,3%. Þau 3,3% sem komu um áramótin voru utan þessa kjarasamninga, voru ekki afleiðingar af þeim. Samanlagt hafa þeir fengið 7% og munu fá aldurstengda lífeyrisuppbót hækkaða, fyrir utan öll þau atriði sem voru bætt með lagasetningunni fyrir páska og fólust m.a. í að hætt var að taka tillit til tekna maka, hætt að taka tillit til séreignarsparnaðar o.s.frv. Þá bættust við fjöldamörg atriði sem bættu kjör öryrkja. Samanlagt held ég að þeir séu ekki mikið verr settir heldur en þeir lægst launuðu á vinnumarkaði.

Ég vil benda á að þeir lægst launuðu á vinnumarkaði eru með lægri laun en öryrkjar með lægstur bætur.