135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:59]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óska hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur til hamingju með jómfrúarræðuna og þakka henni kærlega fyrir fyrirspurnina.

Við deilum þeim áhuga að tryggja að bætur úr almannatryggingum, hvort sem er til öryrkja eða ellilífeyrisþega, verði aldrei undir lágmarkslaunum. Þessa dagana er verið að vinna mikið í þessum málum. Við erum nýkomin í gegn með almannatryggingafrumvarp og eigum von á frumvarpi um útfærsluna á 25 þús. kr. til ellilífeyrisþega í gegnum lífeyrissjóðakerfið og fleiri málum sem ég ætla ekki að rekja hér en hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi á undan. Hér er rætt um bókun í kjarasamningum sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Bætur almannatrygginga hækki í samræmi við gildandi lög.“

Sumir höfðu væntingar um að þá kæmi samhliða 18 þús. kr. hækkun á lágmarkslaun, eins og gert er ráð fyrir í samningum. Það var ekki gert. Aftur á móti er verið að flýta því sem kemur í seinni hluta samþykktarinnar um að endurskoða almannatryggingakerfið, að fara yfir og skoða leiðir til að tryggja lágmarksframfærslu. Það er búið að flýta þeirri vinnu. Það hefur verið boðað af hæstv. félagsmálaráðherra að unnið verði í því fyrir 1. júlí í staðinn fyrir 1. október. Ég bind við það miklar vonir líkt og hv. ræðumaður að við náum að laga þetta fyrir sumarið á þessu vorþingi.