135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með það og fagna því að málefni Sundabrautar skuli vera til umræðu í sölum hv. Alþingis í dag enda er hér um mjög mikilvæga framkvæmd að ræða. Til marks um það eru málefni Sundabrautar einnig á dagskrá borgarstjórnar Reykjavíkur í dag sem sýnir og gefur glögga mynd af því hversu gríðarlega mikilvæg þessi samgöngubót er fyrir land og þjóð.

Saga Sundabrautar er orðin æðilöng, hún var fyrst sett á skipulag borgarinnar 1986 og 1987. Það er því miður ekki hægt að segja að þessari brýnu framkvæmd hafi fleygt hratt fram á því tímabili og í samræmi við þá umræðu sem fram hefur farið, því að enn hefur ekki verið hafist handa við gerð þessarar samgöngubótar. Trúlega eru ástæður þess margs konar, m.a. þær að mismunandi sjónarmið hafa verið innan borgarstjórnar Reykjavíkur um hvaða leið ætti að velja. Í gegnum tíðina hefur því að einhverju leyti staðið á borginni í þessum efnum en því er ekki lengur til að dreifa nú því að borgarstjórn hefur sammælst um að svokölluð ytri leið verði farin og þá með jarðgöngum frá Laugarnesi að Gufunesi. Nú stendur því, hæstv. forseti, upp á samgönguyfirvöld að segja af eða á hvort ríki og borg gangi í takt í þessu máli. Það er þess vegna mikilvægt að ræða þetta á vettvangi Alþingis til að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra og ekki síður sjónarmið þingmanna og þingflokka á Alþingi Íslendinga í ljósi þess að þetta mál er einnig til umræðu í dag á vettvangi borgarinnar.

Eins og ég hef rakið er hér um mikið hagsmunamál að ræða og ekki aðeins fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig fyrir stóran hluta landsbyggðarinnar. Við getum í því tilliti horft til Vesturlands hvað Hvalfjarðargöngin gerðu fyrir Vesturlandsfjórðung á sínum tíma. Vesturland hefur blómstrað með tilkomu Hvalfjarðarganganna, því að með þeim hafa vegalengdir styst og með þessari samgöngubót munu vegalengdir til og frá Reykjavík styttast um 10–12 kílómetra.

Við þekkjum líka, hæstv. forseti, til þess ástands sem er á umferðarmannvirkjum höfuðborgarsvæðisins. Þessi framkvæmd, ef af verður, mun auka til muna umferðaröryggi fólks sem daglega sækir vinnu á þessu svæði og hún mun líka sérstaklega stytta vegalengdir úr Grafarvogi niður í miðbæ á þeim tíma og síðast en ekki síst mun hún minnka þann tíma sem fólk ver á degi hverjum á umferðarþyngstu tímunum í umferðinni sem er mjög dýrmætur tími sem fer til spillis hjá því fólki. Þess vegna verðum við að ráðast í þessa brýnu framkvæmd að mati okkar framsóknarmanna rétt eins og borgarstjórn Reykjavíkur hefur núna lagt til. Þessi framkvæmd snýr að lífsgæðum fólks sem býr á höfuðborgarsvæðinu og fólks á landsbyggðinni eins og ég hef áður rakið og við framsóknarmenn höfum lagt til á undanförnum árum, og það hefur verið stefna Framsóknarflokksins, að ráðist verði í Sundabraut. Ég er á þeirri skoðun að við eigum, rétt eins og borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til, að fara hina svokölluðu ytri leið með jarðgöngum og það virðist vera mjög breið samstaða um þá leið, m.a. meðal íbúa í Grafarvogi, í Vogum og í Laugardal en íbúasamtök þeirra hverfa hafa sagt sína skoðun á því að það ætti að fara í þá framkvæmd. Ég tel, hæstv. forseti, að við eigum ekki að velja ódýrasta kostinn í þessu máli, því að eins og ég segi þá erum við að ræða um lífsgæði fólksins og við erum að ræða um samgöngumannvirki sem mun standa áratugum saman og því þurfum við að horfa til framtíðar í þessum efnum.

Eins og ég sagði hér er það stefna Framsóknarflokksins að við ráðumst sem fyrst í þessa framkvæmd, enda var það svo að síðasta ríkisstjórn ákvað að verja hluta af söluandvirði Símans í Sundabraut, þannig að það er ekki fjármagnsskortur sem veldur því að ekki sé hægt að ráðast í framkvæmdir. Því þarf skýrar línur í dag frá hæstv. samgönguráðherra og í raun og veru frá ríkisstjórnarflokkunum hvort það sé sameiginlegur vilji þessara aðila að fara ytri leiðina með jarðgöngum eins og Reykjavíkurborg hefur lagt til og margir fleiri. Ég hef því lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra, sem m.a. hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur einnig gert áður að hluta til, þar sem ég spyr hæstv. ráðherra hvað líði undirbúningi Sundabrautar, hvort ráðherra sé sammála borgarstjórn Reykjavíkur um að fara svokallaða ytri leið, hvort gerð hafi verið úttekt á samlegðaráhrifum þess að nýta það efni sem úr göngunum kemur til uppfyllingar vegna annarra hluta framkvæmdarinnar og síðast en ekki síst hvenær megi vænta þess að framkvæmdin verði boðin út, (Forseti hringir.) því að fólk hefur beðið mjög lengi eftir tilkomu Sundabrautar. Hér þarf samstillt átak til að hefja þetta verk.