135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þessa umræðu. Við getum rætt um málefni Sundabrautar enn einu sinni en eins og hv. þingmaður gat um þá var hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ekki alls fyrir löngu með fyrirspurn í þinginu um þetta mál svipaðs eðlis, þannig að það má kannski vitna svolítið til þess svars líka.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það skeikaði að vísu tveimur árum, að Sundabraut hefur verið í aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1984 þannig að þetta er langur tími. Ýmislegt hefur verið gert og ýmislegt skoðað en þó mest síðustu fimm, sex, sjö árin. Þannig er t.d. með þetta verk að nokkrar leiðir hafa farið í umhverfismat. Botngöng hafa farið í umhverfismat, hábrú hefur farið í umhverfismat, innri leið, leið 1, hefur farið í umhverfismat og nú samkvæmt sérstakri ósk Reykjavíkurborgar er verið að fara með í umhverfismat, og það er hafið, jarðgöng undir Kleppsvíkina. Margt hefur því verið kannað, það er ekki eins og verkið sé að byrja. Það er sem sagt fjórði liðurinn eða í raun og veru fimmti liðurinn, ef bætt er við leið 1 breyttri eins og hún liggur núna í umhverfismatinu.

Hv. þingmaður spyr: Hvað líður undirbúningi Sundabrautar? Ég held að honum líði bara vel og sé á fullri ferð loksins og verið sé að kanna þá þætti sem borgarstjórn Reykjavíkur gat um og þáverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins — eða væntanlegur, nei ég held að hann hafi verið orðinn — Björn Ingi Hrafnsson, sagði orðrétt að ef menn færu í það að kanna þennan nýja kost mundi það seinka verkinu um mörg ár. Og framsóknarmaðurinn hafði á réttu að standa hvað þetta varðar. Auðvitað tekur þetta sinn tíma. Gera menn sér t.d. grein fyrir því að rannsóknarborunum vegna jarðgangaleiðar lauk ekki fyrr en í ágúst á síðasta ári og þá fyrst var hægt að fara að vinna úr þeim? Vegagerðin hefur nýlega auglýst drög að umhverfisáætlun fyrir Sundagöng á leið 1.

Hv. þingmaður spyr eins og oft hefur verið spurt um áður: Er ráðherra sammála borgarstjórn Reykjavíkur um að fara svokallaða ytri leið með jarðgöngum? Ég verð þar því miður að vitna enn einu sinni í 28. gr. vegalaga, sem allir þingmenn, fulltrúar allra stjórnmálaflokka samþykktu á síðasta þingi, sem er um það að rísi ágreiningur um réttmæti kröfu um leiðir eða um fjárhag skuli málinu skotið til ráðherra til úrskurðar. Ég verð enn að vitna í þessa lagagrein og þetta á í raun og veru við um tvö verkefni í landinu sem gætu komið til svona úrskurðar, hitt er Hornafjarðarfljót. Nú má auðvitað segja sem svo að það sé hægt að segja hvað maður vilji og gera sig vanhæfan þannig að verkið komi til annarra en ég ætla að leyfa mér þann munað að hafa það áfram og vona að ekki komi til þess.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður um ytri leiðina og hvort gætt hafi verið að samlegðaráhrifum þess að nýta það efni sem úr göngunum kæmi til uppfyllingar vegna annarra hluta framkvæmdarinnar. Já, auðvitað, það er keppikefli Vegagerðarinnar við allar jarðgangaframkvæmdir að nýta sem mest af því efni sem kemur út í vegagerð til og frá viðkomandi verki vegna þess að það er nauðsynlegt. Það er stundum mesta vandamálið í umhverfismati gagnvart jarðgöngum hvar á að haugsetja það sem kemur út úr þeim. Að sjálfsögðu verður það efni allt saman notað, ef til þess kemur, í vegtengingar til og frá. Það er mikið magn sem kemur út eins og menn eru að tala um núna í Héðinsfjarðargöngum þar sem mest af því er notað, eins og hv. þingmaður veit um, í Héðinsfirði, í vegspottann sem þar kemur á milli.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður: Hvenær má vænta þess að framkvæmdin verði boðin út? Miðað við það sem ég hef sagt hér og miðað við þann feril sem er í gangi — og vitna ég t.d. í orð Björns Inga Hrafnssonar og fleiri aðila, það má líka vitna í Gísla Martein Baldursson, ágætan borgarfulltrúa — þá eru ekki líkur á að það verði fyrr en á árinu 2009. Hvort það verður í janúar, júní eða september er ekki hægt að segja til um. En miðað við umræðuna núna þegar þetta er að fara í umhverfismat, þá virðist mér að það sé mikil sátt um það, að það verði ekki deilur og kærur sem oft og tíðum tefja vegaframkvæmdir og ætla ég ekki að telja upp þær vegaframkvæmdir sem eru í slíkum ferli í dag sem óneitanlega tefja mjög mikið viðkomandi framkvæmdir vegna þess að þær eru þá í þeim farvegi öllum. Vonandi verður það ekki. Það lítur út fyrir að það ríki sátt um þetta þannig að vonandi getur það gengið árið 2009. Hins vegar kem ég kannski að því aðeins síðar, ef ég má aðeins minna á það, (Forseti hringir.) að í samgönguáætlun eru áætlaðir 8 milljarðar til þessa verks. Verkið mun kosta 35 milljarða ef gangaleiðin verður farin og það verður auðvitað verkefni Alþingis og ríkisstjórnar að sjá hvernig á að fjármagna mismuninn.