135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:20]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Það er orðið býsna langt síðan bygging Sundabrautar var áformuð og víst er að flestir landsmenn eru að verða langeygir eftir henni. Það er mjög brýnt að samstaða náist um að klára sem fyrst nauðsynlegar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Umferðarþunginn í borginni og til og frá henni eykst stöðugt og samgöngumannvirki höfuðborgarsvæðisins hafa ekki annað vexti svæðisins undanfarin ár.

Það virðist vera samstaða í borgarstjórn Reykjavíkur um að fara svokallaða gangaleið. En Vegagerðin hefur haft efasemdir um þá framkvæmd og ekki verður betur séð en að sérfræðingar þeirra telji öruggara að fara í framkvæmdina með brúm. Ég get ekki dæmt um það hvernig berglög eru undir Faxaflóanum. En hitt segi ég að það er skylda allra sem koma að þessu máli að klára undirbúninginn hið allra fyrsta svo hægt sé að koma sér að verki. Og vegna þess að allir eru að bíða eftir Sundabraut eru aðrar framkvæmdir sem tengjast henni í borginni einhvern veginn samhangandi og tafsamar.

Ég vil líka benda á að þegar horft er til stórra framkvæmda eins og Sundabrautarinnar á að horfa langt fram í tímann. Þetta á reyndar við um samgönguframkvæmdir alls staðar á landinu. Mér finnst tímabært að menn snúi sér að því að horfa á höfuðborgarsvæðið í heild sinni og kanna hvernig haga eigi umferðarskipulagi.

Umferðarþungi mun áfram aukast frá miðborg Reykjavíkur. Þar er Háskóli Íslands, listaháskóli í bænum, tónlistarhús, Háskólinn í Reykjavík og síðast en ekki síst hátæknisjúkrahús. Þangað verða sjúklingar að komast innan úr bænum og utan af landi og hver mínúta skiptir máli. Þess vegna skiptir höfuðmáli að uppbygging umferðarmannvirkja á höfuðborgarsvæðinu verði með þeim hætti að það endist því það skal ekki gleymast sem sagt hefur verið að lengi býr að fyrstu gerð.