135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[15:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega þannig með veiðar á villtum stofnum að það gengur mjög erfiðlega að áætla stofnstærð þeirra yfirleitt. Það á líka við um rjúpuna sem hefur verið á alfriðuðum svæðum og henni hefur fækkað þar og líka á svæðum sem ekki hafa verið friðuð og henni hefur fækkað þar eða fjölgað eftir atvikum. Nóg um það.

Það er hins vegar, hæstv. forseti, ekki hægt að fylgjast með stærð þessara dýrastofna, m.a. sjófugla, með veiðum. Það höfum við séð, þeir sem á annað borð fylgjast með náttúrunni og hafa gaman af því, að sjófugla rekur stundum í hundraða tali að vetri og þau afföll hafa miklu meiri áhrif á þann dýrastofn en þær veiðar sem nú eru stundaðar á svartfugli hér við land þó það hafi verið með öðrum hætti meðan menn stunduðu björgin og skutu sér í matinn úr hverri syllunni á fætur annarri eftir þörfum. Ég stundaði handfæraveiðar á Vestfjörðum og við fórum alla sumardaga og skutum okkur í súpu og það kom alltaf fugl í sömu sylluna þó að skotið væri úr henni. Því miður eru þessir menn sem stjórnuðu byssunni þá, ég var stráklingur, dánir, gengnir til feðra sinna. Þeir höfðu alist upp í Hornbjargi, sigið í það og notað öll þau hlunnindi sem þar voru. Ég geri því miklar athugasemdir við þann málflutning að menn geti yfirleitt fylgst með stærð sjófugla með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessum veiðiskýrslum. Það er hægt að kortleggja þessa veiði en hún er bara brot af því sem fellur frá í stofninum á hverju ári en allt aðrar ástæður ráða stærð stofnanna.