135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við þessari spurningu krefst sennilega meiri tíma en andsvar gefur tilefni til og mun ég koma inn á það í seinni ræðu og geta sérstaklega um það.

Það eru tvö lönd sem hafa aðrar reglur um skattlagningu söluhagnaðar og fara þá eftir þeirri heimspeki að söluhagnaður hlutabréfa umfram innra virði er söluhagnaður af hagnaði framtíðarinnar. Það er söluhagnaður framtíðarinnar því að hann er ekki orðinn enn þá. Þegar menn selja hlutabréf á hærra verði en sem nemur innra virði fyrirtækja þá er í rauninni verið að selja og kaupa hagnað framtíðarinnar.

Tvö lönd, Noregur og Holland, hafa tekið þá stefnu að skattleggja ekki þennan hagnað framtíðarinnar fyrr en hann kemur í hús. Þá lækkar skattur á hagnað fyrirtækja úr 18% í 15%. Þetta er fyrsta svarið.

Annað svarið er það að fyrirtæki hafa einmitt nýtt sér þessi tvö lönd, Holland og Noreg, sérstaklega Holland, og stofnað þar dótturfyrirtæki sem er algjörlega löglegt. Þau hafa svo látið hagnað myndast þar með sölu hlutabréfa og selt síðan hlutabréfin í Hollandi. Þá eru þessar tekjur skattfrjálsar.

Í öðru lagi var inni í núgildandi lögum heimild til þess að endurfjárfesta söluhagnað af hlutabréfum. Menn selja ákveðin hlutabréf og síðan mega þeir endurfjárfesta. Það sem menn hafa gert er að stofna dótturfélög sem þeir endurfjárfesta í og geyma síðan hagnaðinn í rauninni til eilífðarnóns.

Sá mikli hagnaður sem hv. þingmaður nefndi, 330 milljarðar, er ekki í hendi fyrir ríkið og verður ekki. Það er því ekki hægt að reikna sér einhverjar tekjur af þeim hagnaði.