135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:23]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti sérstaka athygli mína hvað þingmanninum gekk illa að svara spurningunni. Svarið gat verið já, það gat verið nei. Þurfi ekki að vera lengra en hvorugt kom.

Árlegar fjárhæðir frestaðs hagnaðar lögaðila vegna söluhagnaðar af hlutabréfum frá 2001 eru um 600 milljarðar kr. samkvæmt töflunni í greinargerð með frumvarpinu ef maður leggur það saman yfir þessi sjö ár, 600 milljarðar kr. Þetta er framtalinn hagnaður. Þetta eru viðskipti sem orðið hafa, hagnaður sem hefur myndast. Vegna þess að á það var fallist fyrir mörgum árum að menn þyrftu ekki að borga skatt af þessum hagnaði heldur gætu frestað honum hafa þeir sem þennan hagnað eiga ekki þurft að borga krónu í skatt af þessum hagnaði, um 600 milljarðar kr.

Er verið að strika undir þennan hagnað og gefa hann eftir? Það er einföld spurning. Er verið að gefa eftir um 100 milljarða kr. í skattgreiðslum til ríkissjóðs af hinum gríðarlega hagnaði sem verið hefur undanfarin ár á fjármálasviðinu? Það væri t.d. gaman að vita hvort í þessum hagnaði væru milljarðar til þeirra sem keyptu bankana þegar þeir voru einkavæddir? Fá þeir til baka kaupverðið sem þeir greiddu upphaflega fyrir bankana með eftirgjöf af söluhagnaði, skatti af söluhagnaði sem þeir hafa orðið sér úti um vegna starfsemi þeirra banka sem þeir keyptu? Er það virkilega svo, virðulegi forseti, að þeir sem búa í hinu venjulega íslenska þjóðfélagi og borga skatta af tekjum sínum þurfi að horfa upp á þetta?