135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:26]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í fyrra andsvari mínu er þessi hagnaður ekki í húsi fyrir ríkissjóð. Hann mun ekki koma fram vegna þess að menn hafa fjárfest í eigin dótturfyrirtækjum eða látið hagnaðinn myndast í Hollandi eða Noregi þar sem aðrar reglur gilda. Hann kemur ekki í hús fyrr en viðkomandi hlutafélög skila hagnaði hvar sem það verður og borga þá skatt af þeim hagnaði þegar hann verður. Þetta er nefnilega framtíðarhagnaður.

Það hefur einmitt komið í ljós núna síðasta hálfa árið, ef hv. þingmaður hefur ekki fylgst með því, að þetta verðmæti hefur lækkað afskaplega mikið. Þannig að stór hluti af þessum tölum sem hann nefndi eru horfnar. Það sýnir hvað þetta er í rauninni vafasamur skattstofn að vera að skattleggja framtíðarhagnað sem ekki er í húsi og getur sveiflast með þessum ósköpum eins og við höfum upplifað undanfarnar vikur og daga.

Þess vegna er það rétt og ég svara því játandi, að verið er að strika yfir þessar tekjur. Eins og ég sagði í fyrra svari mínu, þá eru þær ekkert í húsi. Menn hafa notað tækifærið til að mynda eða stofna dótturfélög og kaupa þau og látið hagnaðinn og tekjurnar fara þangað sem er löglegt eða þá að menn geta flutt hann til Hollands. Markmið þessa frumvarps er að reyna að fá það fé aftur til landsins í stað þess að láta það sigla til Hollands. Þessi tvö lönd, Noregur og Holland, fylgja þeirri stefnu að skattleggja ekki framtíðarhagnað sem ekki er í húsi. Þau skattleggja hann heldur þegar hann er kominn í hús og halda fyrirtækjunum í landi.