135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hafa þarf í huga hvernig skattstofninn er úr garði gerður og hvaða undanþáguheimildir og frádráttarmöguleikar eru til staðar áður en menn bera saman prósentur. Mér finnst oft óskaplega barnalegt að heyra menn tala um þessi mál og sögu þeirra hér á Íslandi. Ég verð að segja að stundum á það við um flokkssystkini hv. þingmanns, ég er ekki að segja hann sjálfan. Þá fara menn út í hina hráu prósentusögu og óskapast yfir því hve mikill árangur hafi náðst frá því að tekjuskattur lögaðila var 45–50%. En við hvaða aðstæður var hann það? Í bullandi verðbólgu, skattur af hagnaði greiddur eftir á, skattstofn miklu þrengri og frádráttarmöguleikar meiri. Við erum ekkert að tala um sambærilega hluti við það sem innleitt var með 30% tekjuskatti á breiðari skattstofnum en færri frádráttarheimildum sem síðan lækkaði ofan í 18 og á nú að lækka ofan í 15. En þá er að vísu orðið mjög vel gert, ég held að það verði að segjast eins og er.

Ég hef ekki sömu áhyggjur og ýmsir aðrir af því að ef við Íslendingar séum ekki alltaf skrefinu á undan í þessum efnum og bjóðum aðeins betur en allir aðrir að þá bara fari allir héðan. Mér finnst stundum að það liggi í loftinu í umræðunni. Halda menn ekki að einhverjir aðrir verði þá til þess að sinna þeim markaði og viðskiptatækifærum sem hér eru? Nýta þær auðlindir og þann mannauð sem hér er? Það held ég. Ég held að það sé óskaplegur misskilningur í því að einn góðan veðurdag taki allt atvinnulífið á Íslandi til fótanna og fari úr landi af því að einhvers staðar annars staðar úti í heimi bjóðast betri kjör. Hvers vegna er þá ekki allt atvinnulíf farið frá Norðurlöndunum? Það hefur bara ekki gerst. Þannig að frjálshyggjurökin í þessum efnum hafa ekki reynst haldbær. Það er vegna þess að það er svo margt annað sem skiptir máli, það er svo margt annað sem getur gert það hagstætt að vera á Íslandi.

Ég hef miklu meiri áhyggjur af hinum efnahagslega óstöðugleika heldur en ég hef af skattaumhverfinu. Ég er miklu (Forseti hringir.) hræddari við (Forseti hringir.) að mistök hægri manna í hagstjórn á Íslandi (Forseti hringir.) séu á góðri leið með að hrekja atvinnulífið úr landi en ekki skattakerfið.