135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:19]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Úti á landi starfa mjög mörg stór útgerðarfyrirtæki sem gera það gott og alveg sérstaklega eftir að gengið féll svona mikið. Það hefur minna verið talað um það. En þau njóta þess að sjálfsögðu að fullu. Það er gott fyrir landsbyggðina. Útgerðarfyrirtækin eru flestöll úti á landsbyggðinni.

Eitt stórt álver er á Austfjörðum og malar þar gull, sérstaklega í ljósi síðustu atburða þegar álverð hefur hækkað langt umfram áætlanir. Þannig að úti á landi eru nokkur góð fyrirtæki.

Hins vegar er eitt fyrirtæki sem heitir Landsvirkjun sem er opinbert fyrirtæki í eigu ríkisins. Ef við mundum skipta því í þrennt, værum með eitt fyrirtæki sem héti Austfjarðavirkjun hf. með höfuðstöðvar á Egilsstöðum, annað sem héti Þjórsárvirkjanir hf. með höfuðstöðvar á Hvolsvelli eða Selfossi, og eitt með höfuðstöðvar í Hveragerði eða eitthvað slíkt. Það væri rökrétt eins og að Hitaveita Suðurnesja er ekki með skrifstofur í Reykjavík.

Það er einmitt þessi ríkisvæðing og ríkiseign alls staðar sem gerir það að verkum að t.d. Landsvirkjun er með höfuðstöðvar í Reykjavík og dregur allt aflið úr landsbyggðinni. Ég fer ekkert ofan af því að ríkisvæðing og stóraukið opinbert batterí þýða fleiri störf í Reykjavík.