135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta þingmál. Það hefur þegar komið fram að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskar eftir því að það gangi aftur til efnahagsnefndar þingsins og fái þar frekari skoðun. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert grein fyrir þeirri ósk.

Ég ætla ekki að vera langorður en hv. þm. Pétur H. Blöndal er alltaf inspírerandi í sínu tali og vakti máls á ýmsum þáttum sem mig langar aðeins til að víkja að. Menn ræddu nokkuð um það að okkur hefði mistekist á undanförnum árum að jafna þann aðstöðumun sem óumdeilanlega er á milli þéttbýlis annars vegar og dreifbýlis hins vegar, að okkur hafi ekki tekist að færa störf út á landsbyggðina eins og oft hefur verið reynt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði þetta sérstaklega að umtalsefni og hv. þm. Pétur H. Blöndal brást við með þeim hætti að segja að leiðin til þess að bæta hér úr væri að minnka umsvif ríkisins.

Staðreyndin er sú að hið gagnstæða er upp á teningnum. Ég get vísað í mörg dæmi þar um. Ég ætla að nefna aðeins eitt: Rafmagnseftirlitið í landinu sem var einkavætt á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Rafmagnseftirlitið var framkvæmt hjá rafveitum víðs vegar um landið. Starfsmenn sem sinntu að sönnu ýmsum öðrum verkefnum, sumir hverjir þó einvörðungu með rafmagnseftirlitið á sinni könnu og stóðu undir þessari starfsemi.

Síðan var Rafmagnseftirlitið einkavætt og hvað gerðist? Allt eftirlitið fluttist til Reykjavíkur. Til urðu tvö, um tíma þrjú, fyrirtæki, ég held að það sé nú aðallega eitt núna. Það er kallað einokun. Hún sinnir þessari starfsemi og er rekin héðan frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er bara eitt dæmi. Ég gæti tekið fleiri dæmi en ætla ekki að staldra lengur við þennan þátt málsins.

Hitt hefur líka verið til umræðu í tengslum við þetta þingmál, og það er kannski kjarninn í þessari umræðu, þ.e. hvernig við eigum að fara að því að dreifa skattbyrðum landsmanna. Á undanförnum árum höfum við búið við ríkisstjórnir sem hafa létt skattbyrðunum af þeim sem hafa mestar tekjurnar og létt skattbyrðum af fyrirtækjum einnig. Á sama tíma hafa skattaklyfjar láglaunafólksins aukist verulega og nú er hér talað fyrir því eina ferðina enn að það þurfi að bæta, ella fari fyrirtækin úr landi.

Hér er ég kominn að ástæðu þess að ég kveð mér hljóðs. Ég tek nefnilega undir það sjónarmið sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er harla ólíklegt að þau fyrirtæki sem hér er iðulega vísað til, bankar og fjármálafyrirtæki, fari úr landi. Ég hef um það miklar efasemdir og ég held að menn vanmeti stórlega þann jarðveg sem þessi fyrirtæki eru sprottin úr.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, sagði á ráðstefnu um lífeyrismál ekki alls fyrir löngu sem haldin var á vegum BSRB að í hverju einasta útrásarverkefni frá Íslandi á undanförnum árum hefðu lífeyrissjóðir landsmanna komið við sögu. Gera menn sér grein fyrir því að víða í útlöndum er lífeyriskerfi Íslendinga mikið til umræðu og margir telja það fyrirkomulag sem við höfum smíðað vera aðdáunarvert. Á hverju byggist það? Það byggist á því að ef við tökum dæmi um opinberan starfsmann — opinberir starfsmenn búa við sterka lífeyrissjóði — sem vinnur fimm daga vikunnar þá vinnur hann einn heilan dag bara fyrir lífeyrissjóðina. Greidd eru 15,5% í sameignarlífeyrissjóð. Síðan á hann kost á því að borga 2% í séreignarsjóð og 2% koma þá á móti frá atvinnurekanda. Það eru 19,5%. Fimmtungur af tekjunum rennur inn í lífeyrissjóði. Hér er um að ræða upphæðir sem nema tugum og hundruðum milljarða á undanförnum árum. Það fæst síðan staðfest af hálfu helstu forsvarsmanna útrásaraðila að í öllum tilvikum hefði verið byggt á fjármagni frá íslenskum lífeyrissjóðum, frá íslensku samfélagi.

Þess vegna segi ég: Við skulum ekki gera lítið úr þeim jarðvegi sem fjármálastofnanirnar og fyrirtækin yfir höfuð eru sprottin upp úr og eiga alla sína velgengni að þakka. Það er þess vegna sem það gerist núna í þeim hremmingum sem fjármálafyrirtækin eiga við að stríða að horft er til lífeyrissjóðanna því að þeir færa ekki bara pappíra á milli heldur krónur og aura, seðla og mynt, alvöru fjármuni. Það er launasparnaður íslensks almennings. Það er ekkert undarlegt að þessi sami almenningur geri kröfu um réttlæti þegar kemur að því að sníða skattkerfi fyrir ríki og sveitarfélög. Að sjálfsögðu gerir almenningur það.

Við viljum hyggja að þessum þáttum þegar við skoðum áherslur varðandi skattana. Að sjálfsögðu mundu allir fagna því, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki, ef hægt er að létta af þeim sköttunum, ef þeir horfa þröngt á málið. En okkur ber að horfa heildrænt á þessi mál og horfa til þessara réttlætismála líka.

Ég held að það verði aldrei nógsamlega mikil áhersla lögð á þennan samfélagslega grundvöll sem útrásarfyrirtækin byggja á. Halda menn kannski að fjármálaspekingarnir hinir mestu, hvort sem þeir heita Bjarni Ármannsson, Hannes Smárason eða Ólafur Jóhann, hefðu haft mikið fram að færa t.d. í orkugeiranum ef þeir hefðu ekki fengið aðgang á einhvern hátt að íslenskri náttúru og íslenskum auðlindum? Eða hvernig stendur á því að allir þessir miklu snillingar fara ekki á eigin spýtur út í heim með útrás? Nei, það er Ísland og íslenskt samfélag sem skiptir hér höfuðmáli og menn skulu ekki vanmeta það.