135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit reyndar ekki alveg hverju ég er að svara öðru en því að ég tek undir með hv. þingmanni, að vextir og raunvextir á Íslandi eru og hafa lengi verið óhóflega háir. Ég man eftir því, af því að vísað er í Sigtúns-tímann, að þáverandi forstjóra Kaupþings, núverandi hv. þm. Pétri H. Blöndal og ágætum seðlabankastjóra, Jóhannesi Nordal, bar saman um það, þessum ágætismönnum, að með verðtryggingu á lánum þyrftu vextir ekki að vera hærri en næmi tveimur prósentustigum, ef ég man rétt. Ég er alveg sammála þessu sjónarmiði, ég held að það hafi verið hárrétt. Okkur ber að sjálfsögðu að finna leiðir til að færa þetta vaxtastig niður. Það er verkefni sem við stöndum frammi fyrir.

Ég legg einvörðungu áherslu á það, þegar íslenskum almenningi er hótað og íslensku samfélagi er hótað, haft í hótunum við okkur, að fyrirtæki fari úr landi ef þau greiði hér það sem á heimsvísu hljóta að kallast hóflegir skattar. Fjármagnstekjuskattar hér eru lægri en víðast hvar gerist, fyrirtækjaskattar eru lægri og menn eru sífellt að reyna að létta þær byrðar. En ef hægt er að hafa eitthvert jafnræði með öðrum skattgreiðendum þá er haft í hótunum og ég kvaddi mér hljóðs til að leggja áherslu á mikilvægi þess samfélags sem þessi fyrirtæki eru sprottin úr, mikilvægi þess samfélags, á velgengni þessara sömu fyrirtækja. Ég hef þess vegna ákveðnar efasemdir um að þau mundu fara úr landi. Kannski hef ég of mikla trú á sanngirni þeirra aðila sem þar stýra för en þó held ég ekki að svo sé.