135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:37]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór í andsvar við hv. þingmann til að benda á að það væri ekki bara iðgjaldið sem byggði upp lífeyrissjóðina heldur og ávöxtunin. Hún var sársaukafull fyrir þá sem stóðu undir henni. Það er ekki bara það að menn eyði fimmtungi af launum sínum í lífeyrissjóðsiðgjöld heldur safnast þar sú ávöxtun sem lántakendur greiða.

En varðandi hótanirnar. Ef hv. þingmaður segist ætla að ganga yfir Austurvöll á eftir og segir við mig: Ég ætla að labba yfir Austurvöll á eftir af því að veðrið er gott þá er það engin hótun við mig. Hann ætlar bara að fara af því að hann langar til þess. Íslensk fyrirtæki fara þangað sem þau langar að vera, þar sem er góð aðstaða. Erlend fyrirtæki koma þangað sem þau langar til að vera. Þess vegna er það verkefni stjórnmálamanna að búa íslenskum fyrirtækjum gott umhverfi, gott skattaumhverfi, gott velferðarkerfi og gott regluverk, eftirlitsstofnanir, skilvirkar og hraðvirkar. Verkefni stjórnmálamannanna er að búa íslenskum fyrirtækjum svoleiðis umhverfi svo þau vilji vera á Íslandi af frjálsum vilja. Það felst engin hótun í því að meta það betra að vera í þessu landi fremur en hinu. Kannski kemur erlent fyrirtæki á í kjölfarið til Íslands og skapar hér auð og atvinnu. Það væri ekki hótun við viðkomandi land, sem fyrirtækið kemur frá, heldur langar það að koma hingað af því að við stjórnmálamennirnir höfum búið fyrirtækinu svo gott umhverfi. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna.