135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

samgönguáætlun.

292. mál
[16:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má segja að það sé ákaflega viðeigandi undirspil undir þessari umræðu þegar við ræðum hér samgönguáætlun að ákveðnir aðilar í samgöngugeiranum láta til sín taka hér utan veggja þinghússins af ástæðum sem eru kunnar og mönnum þykir nokkuð þungbær sá mikli kostnaður sem fylgir hækkandi eldsneytisverði og of miklum sköttum á orkugjafana.

Fulltrúi okkar vinstri grænna í samgöngunefnd stendur að þessu nefndaráliti þannig að ég þarf ekki að fjölyrða um það að öðru leyti en því að ég vil sérstaklega fagna þeim breytingum sem samgöngunefnd leggur til á málinu. Samgöngunefnd á hrós skilið fyrir að að hafa farið yfir málið og lagt þar til breytingar sem í öllum tilvikum eru að mínu mati til bóta. Að sjálfsögðu er það miklu meira en tímabært að gera almenningssamgöngum hærra undir höfði og kveða á um að þær séu hluti af áætlanagerðinni með myndugum hætti á viðeigandi stað. Sama gildir að sjálfsögðu um umhverfismálin og umhverfisþættina og í þriðja lagi er ég eftir atvikum sammála því, þó það megi sjálfsagt sjá á því bæði kosti og galla, að vera ekki að binda hendur Alþingis hvað það varðar sem auðvitað er ekki hægt vegna þess að Alþingi hefur nú einu sinni löggjafarvaldið og getur alltaf breytt lögum ef það er ósátt við þau. En það er ástæðulaust að láta það standa í lagatexta sem menn yrðu þá að byrja á að breyta eða breyta samhliða ef þannig stendur á að þeir vilja grípa til þess að samþykkja fjögurra ára áætlun þó ekki hafi unnist tími til að klára tólf ára samgönguáætlun. Ég get því einnig stutt þá breytingu.

Varðandi skipan samgönguráðs þá má segja að það sé dálítið sérstakt fyrirbæri þetta svokallaða samgönguráð vegna þess að þetta er í raun „automatisk“ tilnefning yfirmanna undirstofnana samgönguráðuneytisins í starfshóp sem ráðuneytið stýrir með formanni sem það skipar. Það jaðrar við að vera asnalegt að hafa ákvæði um slíkt í lögum því það er auðvitað svo sjálfgefinn hlutur að fagstofnanir ráðuneytisins vinni að þessari áætlanagerð og undirbúi hana. Mér finnst miklu meiri spurning, úr því að skipan samgönguráðs er á annað borð tekin til umfjöllunar, hvort ekki eigi að lögbinda að það skuli vera þverpólitískt samráð um málin á undirbúningsstigi eins og alltaf var um áratuga skeið.

Frá því að fyrstu hugmyndir komu fram og fyrsta vinnan, ef minni mitt svíkur ekki, á áttunda áratug síðustu aldar þegar menn hófust handa við að vinna á grundvelli skipulegrar áætlanagerðar fyrst og fremst á sviði vegamála — eða fyrst var það nú á sviði vegamála, síðan hafnamála og flugmála — þá var áætlanagerðin lengi vel, líklega í um tvo áratugi, alltaf unnin af þverpólitískri nefnd eða undir stjórn og í samráði við þverpólitíska nefnd skipaða fulltrúum úr öllum þingflokkum sem komu að undirbúningsvinnunni og lögðu fyrir ráðherra tillögu að áætlun.

Því miður var horfið frá þessu ráðslagi eftir stjórnarskiptin 1991. Ég tel að það hafi ekki verið til góðs. Ég er heldur ekki að segja að það hafi leitt af því neinn stóran skaða. En ég sakna þess vegna þess að mínu mati var ákjósanlegt að kalla alla að því borði vegna þess að samgönguáætlunargerðin er ekki síst stefnumótunarvinna. Það þarf að leggja línur um æskilega þróun mála og á þeim grundvelli er svo áætlun um framkvæmdir, forgangsröðun, byggð.

Það er að mínu mati ókostur að Alþingi og þverpólitísk aðkoma að málinu hefjist þá fyrst þegar áætlunin birtist á borðum þingmanna. Það væri miklu eðlilegra að öll sjónarmið hefðu legið til grundvallar undirbúningsvinnunni eins og áður var. Það þýðir ekki að menn þurfi endilega að vera sammála. Stundum tókst það vel og oftast en ekki alltaf. Menn kannski bókuðu fyrirvara og svo framvegis. En alla vega var þá búið að hlusta á mismunandi sjónarmið og takast á um þau og menn komu þeim sjónarmiðum að þegar mótaðar voru áherslur, lagðar voru línur um rammann, um grundvöllinn vegna þess að framkvæmdarþátturinn og áætlanirnar sem rammi um framkvæmdir til tiltekins tíma þær mega ekki bara lifa á sjálfum sér. Það er ekki markmið í sjálfu sér að ráðast í þessar framkvæmdir, ef svo má að orði komast, heldur eru þær til þess að uppfylla tiltekin markmið um góðar og greiðar samgöngur, um að til dæmis ferðatími sé alltaf innan viðráðanlegra marka eins og núverandi samgönguáætlun er byggð á, og að mörgu leyti ágætlega, að menn séu til dæmis aldrei lengur á grundvelli einhverra skipulegra samgangna að komast að þjónustu höfuðborgarsvæðisins en þrjár klukkustundir eða eitthvað í þeim dúr. Það er viðmiðun sem er ekki verri en hver önnur og er lögð til grundvallar og hefur síðan áhrif á það hvaða flugvellir eru í hvaða flokki, hvaða vegaframkvæmdir eru nauðsynlegar til að ná þeim ferðatíma niður og svo framvegis.

Ég er eindreginn stuðningsmaður skipulagðra vinnubragða af þessu tagi og fyrir þó nokkru síðan beitti ég mér fyrir að dusta rykið af eldri áformum sem þá voru til, um 1990, um að sameina vinnuna sem áður hafði verið aðskilin og menn fjölluðu um á þingi, sérstaka vegaáætlun, sérstaka hafnaáætlun, sérstaka flugmálaáætlun, að sameina þetta allt saman. Reyndar vildi ég bæta fjórða þættinum við sem væru fjarskiptin þannig að þetta myndaði allt saman eina heild. Dæmin æptu á okkur um allt. Það fóru miklir fjármunir forgörðum hjá okkur vegna þess að þetta var svona hólfað og menn horfðu ekki til þess að samgöngubætur á einu sviði gætu gjörbreytt nýtingarforsendum mannvirkja á öðrum sviðum.

Eitt allra besta dæmið, held ég, um þetta sem er ákaflega nærtækt að nefna og allir skilja er Óseyrarbrúin yfir ósa Ölfusár. Það var búið að setja mikla fjármuni í nánast meira og minna mislukkaða hafnargerð eða tilraunir til að bæta hafnaraðstöðu á Stokkseyri og Eyrarbakka sem engum manni hefði dottið í hug að gera ef fyrir hefði legið að það kæmi brú á Ölfusárósa við Óseyri og að lífhöfnin í Þorlákshöfn gæti nýst fyrir allt svæðið. Það gat hún auðvitað ekki á meðan vegalengdin var allt of mikil og þurfti að fara alla leið upp á Selfoss til þess að komast á milli staðanna niður á ströndinni. En um leið og ákveðið var að ráðast í framkvæmdirnar gjörbreyttust forsendur. Við þekkjum dæmi býsna hliðstæð frá Eyjafirðinum þar sem hefði mátt með meiri framsýni og skipulagningu og samþættingu af þessum toga spara heilmikla fjármuni á sviði hafnargerðar og fleiri þátta.

Ég held að það sé hafið yfir vafa og hafi margsannað gildi sitt að þessi samþættingarvinna og að vinna þetta svona í einni heildstæðri samþættri samgönguáætlun er hið eina rétta verklag og að sjálfsögðu á að halda bara áfram að þróa það og betrumbæta eins og í raun er verið að gera með þessu litla frumvarpi. Ég hef að sjálfsögðu ekkert nema gott um það að segja og endurtek að ég tel að breytingarnar sem samgöngunefnd leggur til séu allar til bóta og að nefndin eigin þakkir skildar fyrir sína vinnu við málið.