135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

samgönguáætlun.

292. mál
[16:55]
Hlusta

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingsins á að í athugasemd við 2. gr. um frumvarp til laga um samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

„Áfram er gert ráð fyrir að með því að samþykkja samgönguáætlun sé kominn rammi um tekjur og útgjöld til samgöngumála næstu tólf árin, en einnig að með tilvísun til grunnkerfis sé átt við helstu áætlunarflugvelli, millilandaflugvelli, hafnir og stofnvegakerfið ásamt mikilvægum tengivegum og ferðamannavegum.

Öryggismálum er þó gert hærra undir höfði með því að þau eru talin meðal greina samgangna sem samgönguáætlun skal taka til. Öryggismál hvers konar hafa fengið aukið vægi á undanförnum árum og þykir því rétt að þeirra sé getið og um þau fjallað sérstaklega.“

Það er von mín að ef þetta gengur eftir í lagasetningu verði sá rammi virtur og unnið samviskusamlega eftir honum. Ástand safn-, tengi- og ferðamannavega er í algjörum ólestri að mínu mati, meðal annars í mínu kjördæmi sem er Norðvesturkjördæmi og veit ég að það er ekki eina kjördæmið sem svo er ástatt um. Það dylst engum sem þarf að leggja leið sína um þá vegi.

Héraðsvegir og tengivegir í uppsveitum Borgarfjarðar þar sem börn eru flutt með skólabílum dag hvern allt skólaárið eru langt frá því að vera ásættanlegir í okkar samfélagi 2008. Það er fyrst og síðast öryggisatriði og mannréttindi þeirra sem eiga þar búsetu að lagðir séu fjármunir í að viðhalda uppbyggingu þessara leiða. Þar má enn nefna sem dæmi einbreiðar brýr, holótta og mjóa vegi sem oft er ekki hægt að mætast á.

Ef við tölum um stofnvegina og öryggi þeirra þá vil ég minna á aðalleið íbúa Vestur-Barðastrandarsýslu sem mestan hluta vetrar hefur verið í algjörum ófremdarástandi. Hvar er öryggi þeirra tryggt?

Ég vona að með því að inni í þessu frumvarpi er endurskoðunarákvæði samgönguáætlunar sem segir að hægt sé að endurskoða hana oftar en á fjögurra ára tímabili verði hægt að tryggja forgangsröðun verkefna út frá þessari stefnumörkun.

Einnig stendur í þessu frumvarpi til laga í 2. gr., með leyfi forseta:

„Jafnframt skal m.a. meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.“

Ég hlakka til þess tíma að sjá vegabætur þar sem ótrúlegur fjöldi ferðamanna leggur leið sína að náttúruperlum eins og til dæmis Látrabjargi, Rauðasandi, Örlygshöfn, Breiðavík, Hænuvík, Kollsvík, Selárdal og svo mætti lengi telja. Þessir vegir eru rétt eins og þeir voru fyrir 30–40 árum.

Í síðasta lagi segir í 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„... auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.“

Heyr, heyr!

Ég skora á hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller að fylgja þessum hlutum eftir og koma þeim til framkvæmda þannig að íbúar landsbyggðarinnar geti horft til jákvæðrar byggðaþróunar.