135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

minning Gunnars Gíslasonar.

[13:32]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Gunnar Gíslason, fyrrverandi prófastur og alþingismaður, andaðist í fyrradag, mánudaginn 31. mars. Hann var tæpra níutíu og fjögurra ára að aldri, elstur fyrrverandi alþingismanna.

Gunnar Gíslason var fæddur á Seyðisfirði 5. apríl 1914. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Jónsson, verslunarstjóri þar, og Margrét Arnórsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1938. Síðan nam hann guðfræði í Háskóla Íslands og lauk guðfræðiprófi árið 1943.

Gunnar Gíslason varð á útskriftarárinu 1943 sóknarprestur og bóndi á Glaumbæ í Skagafirði og gegndi þeim störfum til ársins 1982. Hann var jafnframt prófastur í Skagafjarðarsýslu árin 1977–1982. Skólastjóri unglingaskóla í Varmahlíð var hann 1944–1946. Hann var kjörinn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Skagafjarðarsýslu í alþingiskosningunum 1953 og 1956 og tók þá tvisvar sæti á Alþingi, fyrra sinn 1955, síðara sinn 1957. Í sumarkosningum 1959 varð hann þingmaður Skagfirðinga og í haustkosningunum sama ár varð hann þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra og hélt því þingsæti til ársins 1974, sat á 18 þingum alls. Hann var 2. varaforseti neðri deildar 1970–1971 og 1. varaforseti deildarinnar 1971–1974. Hann sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1965.

Gunnar Gíslason átti þátt í ýmsum félagsstörfum og var kjörinn til þeirra sem forustumaður. Hann átti sæti í stúdentaráði Háskóla Íslands 1939–1940, var formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, 1940–1941, hann var í hreppsnefnd Seyluhrepps í Skagafjarðarsýslu 1946–1986, í stjórn Skógræktarfélags Skagfirðinga frá 1947, formaður þess 1961–1981 og í stjórn Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ 1948–1986. Í bankaráði Búnaðarbanka Íslands var hann 1969–1985.

Þau æviatriði, sem hér hafa verið talin, bera vitni um það traust sem Gunnar Gíslason naut, ekki síst heima í héraði. Hann var áhugasamur bóndi og var á Alþingi árum saman formaður landbúnaðarnefndar neðri deildar. Ræktun jarðarinnar og efling byggðarinnar í landinu voru honum áhugamál.

Ég bið hv. alþingismenn að rísa á fætur í minningu Gunnars Gíslasonar. — [Þingmenn risu úr sætum.]