135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta var merkileg ræða hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni um þessi mál. Vissulega hafa bílstjórar mótmælt á vegum úti og ég hef sagt í þeirri umræðu að orð séu til alls fyrst. Þrátt fyrir að hv. þingmanni finnist kannski ekki mikið til samræðustjórnmála koma þá er það nú svo að hæstv. ráðherrar, samgönguráðherra og fjármálaráðherra, hafa boðið umræddum aðilum í heimsókn til að fara yfir málin, skýra þau út og ræða þau. Ég held að nú sé nóg komið af mótmælum, alla vega í bili, og menn verði a.m.k. að mæta í kaffiboðið.

Vissulega er þungt hljóð í þessum hópi líkt og í neytendum öllum vegna hækkana á bensíni og olíu á heimsmarkaði. Það hefur auðvitað þau áhrif að neytendur finna fyrir því, ekki bara hér á landi heldur annars staðar í heiminum.

Við höfum séð þetta áður, við sáum þetta vorið 2002 þegar bensínverð fór hækkandi á heimsmarkaði. Þá gekk ríkisstjórnin í málið með því að tryggja áfram ákveðinn stöðugleika með því að lækka tímabundið bensíngjald um nokkrar krónur en bensíngjaldið og olíugjaldið eru fastar upphæðir.

Hv. þingmaður kom að virðisaukaskattinum í þessu máli. Það er nú einu sinni svo að umræddir atvinnubílstjórar innskatta væntanlega virðisaukann af starfsemi sinni þannig að það kemur á móti inn í reksturinn en hins vegar gerir almenningur það ekki. Hv. þingmaður vill greinilega fara inn í virðisaukaskattskerfið með einhvers konar breytingar. Ég held að það sé ekki rétt að gera það á þessu stigi heldur eigi frekar að skoða bensíngjaldið og olíugjaldið og ég (Forseti hringir.) treysti ráðherrunum til að gera það í framhaldi af þeim kaffifundum sem þeir munu eiga auk annarra verkefna sem þeir vinna að. (Gripið fram í: Var það ekki samfylkingar...)