135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:42]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Stjórnvöld verða að taka til hendinni í þessu máli og það verður að lækka eldsneytisverð bæði fyrir atvinnubílstjóra og fjölskyldubíla, bæði dísilolíu og bensín.

Með því að lækka eldsneytisverð erum við að leggja af mörkum … [Hlátrasköll í þingsal.] Maður verður nú ekki oft orðstopp en það er ljóst að með því að lækka eldsneytisverð þá erum við að hafa áhrif á verðbólguna og það er það sem við þurfum að gera. Við þurfum með öllum ráðum að reyna að hafa áhrif á hana og þess vegna er mjög nauðsynlegt að lækka eldsneytisverðið.

Atvinnubílstjórar búa auðvitað við það að allar áætlanir þeirra, öll tilboð og öll verk sem þeir hafa verið að bjóða í upp á síðkastið er allt hrunið bæði út af gengisfalli krónunnar og hækkun á eldsneyti. Ríkið fær núna 72 krónur á hvern lítra og stjórnvöld eiga því að lækka eldsneytisverð. Það er hægt. Hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárveitinganefndar, ætti náttúrlega að sjá sóma sinn í því að koma með tillögur um að lækka það en ekki (Gripið fram í: Þetta er Samfylkingin sem talar.) hafna þeim aðgerðum sem eru í gangi (Forseti hringir.) vegna þess að þær eiga fullan rétt á sér á meðan ekki er hlustað á atvinnubílstjórana.