135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að hafa vakið máls á þessu atriði. Borgararnir hafa orðið varir við mótmæli atvinnubifreiðastjóra og þeir sætta sig við þessi mótmæli og taka undir. Það er ósköp eðlilegt að almenningur í landinu taki undir vegna þess að verð á eldsneyti er komið algerlega út yfir öll mörk. Þess er krafist að það verði lækkað. Það er hárrétt sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson minntist á, að það er þegar kominn tími til þess og átti ekki að þurfa mótmæli til. Hvernig stendur á því að ríkisstjórn Íslands er ekki tilbúin til að gera nauðsynlegar ráðstafanir án langra og víðtækra mótmæla?

Við stöndum í miðjum erfiðleikum þar sem hæstv. forsætisráðherra heldur fram að botninum sé náð. Ég vona að hann sé sannspár hvað það varðar en spurningin er um hvernig við komum til móts við almenning í landinu.

Það er ekki rétt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að varðandi orkufylleríið. Foreldrar sem keyra börnin sín í skólann eða langferðabifreiðastjórinn sem er að koma vörum út í hinar dreifðu byggðir landsins eru ekki á neinu orkufylleríi. Menn eru eingöngu að sinna nauðsynlegum þörfum í þjóðfélaginu á hverjum einasta degi. Við þeim vanda verður að bregðast. Við verðum að gera kröfu til þess að ríkisstjórnin felli niður meginhluta olíugjaldsins meðan svo háttar til sem raun ber vitni varðandi orkuverð í heiminum. Það verður að ná þessu niður. Það er liður í að ná niður verðbólgunni og gæta þess að verðbólguskotið ríði ekki heimilum landsins að fullu.