135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi samráð utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd. Ég tel að það væri góður bragur á því að gera að reglu að utanríkismálanefnd fengi utanríkisráðherra á sinn fund fyrir stóra fundi, eins og leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins er, eða sambærilega fundi. Ég tel að það hljóti að vera einföld leið til að koma slíku ferli á og sá háttur verði einfaldlega hafður á í framtíðinni. Ég er sammála þingmanninum um það.

Á fundi utanríkismálanefndar í morgun kom málið til umræðu og þar lagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fram bókun þar sem hann agnúast út í bandarísku harðlínustefnuna sem Íslendingar, eins og hann kallar það, fylgja að hans áliti. Mér finnst það nokkuð kostulegt og er ekki jafnsammála honum í þeim efnum vegna þess að ef maður horfir á aðildarumsókn Úkraínu og Georgíu að aðildaráætlun Atlantshafsbandalagsins þá skil ég ekki hvernig það getur verið harðlínustefna, hvort sem hún er bandarísk eða ekki, að ætla sér að neita nýfrjálsri þjóð, þar sem tæp 80% þjóðarinnar eru fylgjandi því að sækja um aðild að ákveðnum félagsskap, um að komast inn í þetta bandalag og tilheyra því. Hvernig hægt er að túlka það sem harðlínustefnu er mér fyrirmunað að skilja.

Að sjálfsögðu á að bjóða slíkar þjóðir velkomnar í Atlantshafsbandalagið og tryggja með því stöðugleika í þessari heimsálfu (Forseti hringir.) að því uppfylltu að þau uppfylli önnur skilyrði (Forseti hringir.) sem fram eru sett.