135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[14:07]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé útúrsnúningur hjá hv. þm. Pétri Blöndal að halda því fram að við séum að tala um að gera breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Það er ekki það. Við erum að tala um að nota það fjármagn sem ríkissjóður fær inn að auki vegna þessara hækkana til að lækka olíugjaldið, a.m.k. það. Það er það sem þarf að gera núna. Af því að hæstv. forsætisráðherra talar alltaf um að velja þurfi réttu tímasetninguna á allar ákvarðanir þá þarf að taka þessa ákvörðun núna. Það er nokkuð ljóst.

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hv. þingmenn stjórnarflokkanna svíður undan þessari umræðu — flissið og frammíköllin sem urðu hér áðan, þegar málflutningur hófst um olíugjaldið, var á þann veg að það er ólíðandi. Ég held að fólkið í landinu, sem bíður eftir því að tekin verði ákvörðun um lækkun olíugjalds, muni ekki bera mikla virðingu fyrir slíkri framkomu. Það vildi ég segja. (Gripið fram í: Um hvað ertu að tala?) Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á því um hvað verið er að tala.

Svo vildi ég segja um Samfylkinguna: Það kom fram að hæstv. utanríkisráðherra hefði ekki sýnt utanríkismálanefnd þá virðingu að mæta á fund áður en hún fór á NATO-fundinn. En hv. þm. Árni Páll Árnason hafði orð um það að hæstv. ráðherra hefði lagt línur um það að hún ætlaði að hafa óskaplega mikið samráð og meira samráð við utanríkismálanefnd en t.d. fyrrverandi utanríkisráðherra, sem mér sýnist ekki vera. Samfylkingin er alveg hætt að koma mér á óvart. Allar hennar gjörðir eru þvert á það sem sagt hefur verið. Það má bara reikna með því, hæstv. forseti.