135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

virkjunarkostir á Vestfjörðum.

425. mál
[14:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn og fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt á möguleikum til að tryggja og bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Ég er honum algerlega sammála, eins og áður hefur komið fram, um að öryggið er ekki nægilegt. Eins og hv. þingmaður vísaði til í þeirri raforkuskýrslu sem ég lagði fram á dögunum þá er bilanatíðni hæst og afhendingaröryggi langminnst á Vestfjörðum. Ég er þeirrar skoðunar að forgangsverkefni númer eitt í okkar orkumálum, línulögnum og aðgerðum til að bæta afhendingaröryggi á Íslandi, séu einmitt Vestfirðir.

Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara til þess. Hv. þingmaður bendir eðlilega á að ein leiðin er sú að auka það magn raforku sem er framleitt á Vestfjörðum. Í dag er það þannig að ef línan vestan Hrútatungu á leiðinni til Mjólkár bilar, ef þar verða einhvers konar örðugleikar slær rafmagni á öllu svæðinu út. Ef hægt væri að auka framleiðslu á Vestfjörðum, og líka með svolitlum varnarviðbúnaði til viðbótar, mundu stór svæði í kringum þær virkjanir vera áfram tengd. Það mundi að sjálfsögðu draga mjög úr því óöryggi sem Vestfirðirnir búa við.

Hv. þingmaður spyr mig beint út hvort ég hyggist beita mér fyrir athugunum á virkjunarkostum á Vestfjörðum. Svarið er já. Í fyrsta lagi hef ég þegar óskað eftir því að fá álit á möguleikum sem eru töluvert umfangsminni en þeir sem hv. þingmaður ræddi varðandi Glámuvirkjun, þ.e. stækkun Mjólkárvirkjunar. Ég tel að það sé kannski eðlilegasta skrefið. Það liggur beinast við og það er hægt að auka framleiðslu þar mjög auðveldlega, um 500 kílóvött á ári en upp í tvö megavött, án þess að ráðast þurfi í stórkostlegar framkvæmdir. En það væri líka hægt með nokkrum tilfæringum og fjárfestingum að auka afköst og aflið í Mjólkárvirkjun um 5 megavött. Það skiptir máli ef maður t.d. ber það saman við heildarframleiðsluna sem þar er í dag, þ.e. í kringum 12,5 megavött, þ.e. uppsett afl í virkjunum sem eru tengdar Vestfjarðakerfinu beint er ekki nema 12,5 megavött.

Ég er, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, líka gamall áhugamaður um Glámuvirkjun. Ég skoðaði þá möguleika á sínum tíma með starfsmönnum Orkubúsins á Hólmavík og lét þá kynna hana fyrir mér. Það er ljóst að einn af þeim möguleikum sem menn hljóta að skoða í þessu sambandi, þegar menn velta fyrir sér aukinni orkuframleiðslu á Vestfjörðum, er einhvers konar afbrigði af Glámuvirkjun. Eins og hv. þingmaður gat um er þar um töluvert stóra virkjun að ræða, hún gæti framleitt fast að 70 megavöttum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þau áform eins og þau liggja fyrir verði kannski aldrei að veruleika. Stærstu áform um það hafa í för með sér það mikla röskun að ég er ekki viss um að þau séu ásættanleg miðað við þau sjónarmið sem við höfum til umhverfisverndar í dag þó að þau hafi kannski verið það fyrir 10 árum. Ég nefni það sem dæmi að miðað við þau áform er sennilegt að þau gætu með einhverjum hætti raskað fjórum ám sem laxveiði er í. Ég tel hins vegar að hægt sé að skoða afbrigði af þessari virkjun sem gætu í framtíðinni reynst ákaflega hallkvæm fyrir Vestfirði.

Hv. þingmaður spyr um kostnað við þessa virkjun umfram aðra sambærilega kosti á landinu. Það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Það er kannski ástæðan fyrir því að árið 1993, þegar þessi áform komu fram og athugun var lokið, lögðu menn þetta á hilluna vegna þess að það kom í ljós að reiknaður orkukostnaður við Glámuvirkjun er 50% hærri en algengur kostnaður vatnsaflsvirkjana, þ.e. 31 kr. á árskílóvattstundina. Þannig var það reiknað á árinu 2002 þannig að þetta er töluvert hærra en annars og það er ástæðan fyrir því að menn hafa ekki farið lengra. Hins vegar vitum við að orkuverð fer hækkandi. Það verð sem menn eru reiðubúnir til að greiða fyrir orkuna, a.m.k. útlend fyrirtæki sem eru að spyrjast fyrir um hana, fer hækkandi.

Hv. þingmaður spyr hver yrðu helstu áhrif Glámuvirkjunar um val á virkjunarkostum. Ég held að þau yrðu ekki mjög mikil. Þarna yrðu afgangs ekki nema um það bil tæp 40 megavött þannig að ég held ekki að það hefði stórkostleg áhrif á aðra virkjunarkosti. En það breytir því ekki að menn eiga að skoða þetta mjög vel.