135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

virkjunarkostir á Vestfjörðum.

425. mál
[14:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn hafa m.a. spurt mig um jarðhitaleit á Vestfjörðum og hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir slíku. Því er hægt að svara afdráttarlaust játandi. Ég veit ekki betur en að annaðhvort sé nýbúið eða þá að verið sé að auglýsa lausa til umsóknar styrki upp á 150 millj. kr. til að leita að jarðhita á hinum köldu svæðum, þeim sem hafa tengst t.d. þorskaflaskerðingum. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað orkusparnaður og menn spara þá orku sem ella færi í það að hita með rafmagni.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði líka um sjávarfallavirkjanir. Þær hef ég kynnt mér alveg sérstaklega og farið m.a. vestur í Breiðafjörð til að skoða þá möguleika sem þar liggja fyrir. Satt að segja eru þeir meiri en ég átti von á. Sömuleiðis hef ég með því að kynna mér þessi mál erlendis komist að þeirri niðurstöðu að tæknin er miklu lengra komin en ég hafði a.m.k. talið áður og það eru margar leiðir til að nýta sjávarföll. Ég er þeirrar skoðunar að á þeim stað í Breiðafirðinum, ef sátt tækist um það, sem menn eru að skoða núna séu mjög miklir möguleikar og miklu meiri en a.m.k. ég gerði mér grein fyrir áður.

Mér finnst það ekki alveg rétt hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að menn hafi sinnt þessu lítið, því að þegar ég fór, m.a. að áeggjan þingmanna og áhuga mínum á Vestfjörðum og orkumálum á þar, að skoða þessi mál þá kom í fyrsta lagi í ljós að búið er að skila núna forathugun á Hvalsá í Ófeigsfirði í framhaldi af þingsályktun sem félagi okkar, hv. þm. Karl Valgarður Matthíasson, fékk samþykkta á sínum tíma og það er líka búið að skila forathugun á Skúfnavatnavirkjun í Þverá á Langadalsströndinni. Þetta liggur fyrir.

Sú virkjun sem mér finnst áhugaverðust og hefur verið er Glámuvirkjun en hún var of dýr á sínum tíma. Nú kann það að vera að breytast og þau afbrigði sem m.a. hv. þingmaður nefndi áðan eru mjög fýsileg til skoðunar. En fyrsta skref og það sem ég hef einbeitt mér að er að auka og stækka Mjólkárvirkjun.