135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Blönduvirkjun.

428. mál
[14:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Svo að því sé haldið til haga þá er þessi tala sem ég nefndi um að árlegt orkutap sé um 400 gígavattsstundir að finna í skýrslunni á blaðsíðu 41. Þar er talað um að áætlanir um tap fyrir árin 2007–2012 verði rétt undir 400 gígavattsstundum.

Það er ekki aðalatriðið heldur hitt að mat á tapinu — og það er alveg ljóst að orkan sem framleidd er í Blöndu er flutt í burtu, langa vegalengd. Hvort sem það er suður, norður eða vestur þá eru það mjög langar leiðir og það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þá er tapið meira en þetta meðaltal 2,9%.

Ég mundi telja að það væri varlega áætlað að staldra við 4% eins og ráðherrann gerir en það er bara mat og stutt rökum. Það má auðvitað ímynda sér hærri tölu en við skulum styðjast við þessa tölu og þá fáum við út, og það held ég að sé kjarni málsins, að tapið vegna flutnings orkunnar frá þessari orkustöð af starfstíma hennar nemur framleiðslu hennar í hálft ár. Það er ansi mikið tap á ekki lengri tíma og skilar virkjuninni engum tekjum.

Ég undirstrika að það er skynsamlegt að haga stefnumörkun í atvinnuuppbyggingu á þessu sviði þannig að sem minnst af rafmagni sé flutt langt á milli staða. Þess vegna eiga stjórnvöld að huga að öflugri atvinnuuppbyggingu sem þarf mikla raforku ekkert mjög fjarri þessu orkuveri.