135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

469. mál
[14:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki langt síðan frétt birtist á forsíðu í dagblaðinu 24 stundum um að kvikasilfursmagn í stórurriða í Þingvallavatni væri svo mikið að það væri komið yfir heilsufarsmörk. Það þýddi að það mætti ekki selja þennan urriða eða dreifa honum með öðrum hætti enda gæti hann verið skaðlegur fólki.

Tilefni þessarar fréttar var viðtal við Guðberg Guðbergsson, deildarstjóra hjá Veiðimálastofnun, sem sagði í fréttinni að kvikasilfursmagnið í urriðanum væri það mikið að ekki væri ráðlegt að borða hann oft, sérstaklega ekki fyrir óléttar konur eða konur með barn á brjósti. Síðan segir í fréttinni að örlítið af skaðlegum áhrifum kvikasilfurs á fólk sem ég ætla nú ekki að fara nánar út í hér.

Í kjölfar þessarar fréttar birtust aðrar fréttir henni tengdar þar sem menn lýstu áhyggjum sínum af því að Nesjavallavirkjun gæti verið um að kenna. Þannig háttar til að affallsvatn af virkjuninni hefur runnið út í umhverfið að einhverju leyti, mismikið í gegnum árin. Það mun hafa verið reynt að dæla því niður frá árinu 2004 að einhverju marki og enn munu vera áform um að dæla því niður í meira mæli en nú er gert. En það breytir því ekki að enn rennur talsvert vatn frá Nesjavallavirkjun út í umhverfið og þar með lífríki vatnsins.

Þegar virkjað er og framleidd er raforka með jarðvarmavirkjunum þá nýtist afar lítill hluti orkunnar til raforkuframleiðslunnar, í Nesjavallavirkjun að öllum líkindum um 12%. Afgangurinn í formi varma fer út í umhverfið eða niður í þar til gerðar holur þar sem honum er dælt undir grunnvatn nema að hitaveituþörfin sé slík að hægt sé að taka þetta vatn og veita því til Reykjavíkur eða til höfuðborgarsvæðisins og annarra svæða til hitaveitu.

Við erum búin að nýta það vatn sem við getum nýtt á Hengilssvæðinu til hitaveitu þannig að gríðarlega mikið vatn af þessum nýju virkjunum rennur út í lífríkið eða fer í borholum niður fyrir grunnvatn. Ekki er enn þá endanlega vitað hvernig til tekst í þeim efnum að hve miklu marki þessar niðurdælingar viðhalda síðan hitatankinum.

Alla vega hef ég lagt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra af þessu tilefni þrjár spurningar sem eru eftirfarandi:

Hvernig er afrennsli frá Nesjavallavirkjun háttað og í hve miklum mæli rennur vatn frá virkjuninni út í umhverfið?

Í öðru lagi: Eru taldar líkur á tengslum milli afrennslis frá Nesjavallavirkjun og aukins magns kvikasilfurs í urriðanum í Þingvallavatni?

Í þriðja og síðasta lagi: Hvernig er háttað vöktun á umhverfisáhrifum Nesjavallavirkjunar, þar á meðal hita- og efnamengun, og hyggja stjórnvöld á einhverjar aðgerðir til úrbóta?