135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

469. mál
[14:47]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að bera upp þetta mál því ég held að hér séum við að tala um mjög brýnt mál og ég hvet iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra og ég veit að hann kemur því þar til skila til þess að taka öll þau mál sem snerta afrennsli af orkuvirkjunum á Hengilssvæðinu mjög föstum tökum því ég held að hér hafi ríkt nokkurt andvaraleysi.

Það eru allmörg ár síðan bændur í Grafningi sýndu mér útfellingar á steinum í Úlfljótsvatni sem er affallsvatn úr Þingvallavatni, sem eru svo greinilegar og síðan hef ég þetta séð oft á gönguferðum mínum þarna um að þar er hægt að sjá hvítar útfellingar á steinum. Ég hef ekki efnagreint hvað það er en það skiptir miklu máli að við krukkum ekki í umhverfinu með því að leyfa efnum úr hveraorkunni að flæða þarna inn á. Á þessu svæði eru miklir hagsmunir í húfi, m.a. mikil vatnsupptökusvæði fyrir utan okkar dýrmæta Þingvallavatn sem ég held að stafi ólíkt meiri ógn af þessu en þó svo að einhverjir tali um Gjábakkaveg.