135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum.

491. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Í þeirri skýrslu sem hér hefur borið á góma fyrr í dag um raforkumálefni sem hæstv. ráðherra lagði fyrir þingið og var rædd fyrr í vetur kom fram að afhendingaröryggi er langverst á Vestfjörðum og í skýrslu um flutningskerfi Vestfjarða, áfangaskýrslu sem kom út í desember, er farið frekar yfir það mál og reifaðar ákveðnar hugmyndir til úrbóta. Í þeirri skýrslu segir um stöðuna í afhendingarörygginu á Vestfjörðum, með leyfi forseta:

„Vestfirðir eru tengdir við 132 kV byggðalínu með lengstu geislatengingu flutningakerfisins sem liggur frá Hrútatungu og inn að Mjólká. Tengingin er um 162 kílómetrar að lengd. Slæm veðurskilyrði einkum á Mjólkárlínu 1 valda oft truflunum sem vara lengi vegna fjarlægðar frá byggð og erfiðrar aðkomu við slík skilyrði. Flestar truflanir valda algjöru straumleysi á Vestfjörðum …“

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að áreiðanleiki raforkuafhendingar er lægstur á Vestfjörðum og að straumleysi þar sé að meðaltali um 46 klukkustundir á ári. Það sér hver maður að það er ekki gott að reka atvinnufyrirtæki eða vera við aðstæður þar sem treysta þarf algjörlega á rafmagn ef ástandið er svo ótryggt sem þessar upplýsingar bera með sér. Því er þörf á að bæta úr, virðulegi forseti.

Því spyr ég virðulegan iðnaðarráðherra, í fyrsta lagi: Verður ráðist í að styrkja flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum á þessu kjörtímabili til þess að auka áreiðanleika orkuafhendingar?

Í öðru lagi: Hver er afstaða ráðherra til þeirra fjögurra leiða sem kynntar eru í áfangaskýrslu Landsnets frá desember 2007 um flutningskerfi Vestfjarða? En í skýrslunni er nánar útfært hvernig þessar leiðir eru og þær aðgerðir sem eiga að bæta afhendingaröryggið frá því sem nú er. Allar eiga þær það sammerkt að byggja á því kerfi sem fyrir er og styrkingarnar eru þar eða nálægt því. Það sem mér finnst vanta er að skoða möguleikana á hringtengingu rafmagns um Vestfirði frá Ísafjarðardjúpi yfir til Strandasýslu og þaðan í Hrútatungu.

Virðulegi forseti. Því spyr ég, í þriðja lagi: Er ráðherra reiðubúinn að láta skoða þann möguleika að styrkja flutningskerfið með hringtengingu um Vestfirði þannig að línan lægi frá Ísafirði um Ísafjarðardjúp yfir til (Forseti hringir.) Strandasýslu og þaðan suður að Hrútatungu?