135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum.

491. mál
[15:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og fagna þeim vilja hans sem fram kom í þeim til þess að ráðast í endurbætur á raforkukerfinu og af myndarskap. Miðað við það sem fram kom í svörum hans er ljóst að fullur hugur hans stendur til þess að farið verði loksins í að bæta úr þessu raforkukerfi sem hefur reynst svo ótraust um margra ára skeið eins og raun ber vitni án þess að æðstu yfirmenn hafi látið sig málið mikið varða, því miður. Það hefur valdið mörgum Vestfirðingum um margra ára skeið verulegum áhyggjum. En það virðast vera, miðað við svör ráðherra, nýir tímar uppi og ég fagna því alveg sérstaklega.

Ég get verið alveg sammála hæstv. ráðherra um að endurbætur samkvæmt tillöguleið 1 eru álitlegar og ég hvet hæstv. ráðherra til athafna í þeim efnum. Ég get líka sætt mig við það að hann svari því ekki strax hvort hann fallist á þá hugmynd mína að hringtengja raforkuna. Ég tel það alveg ásættanlegt á þessu stigi að hann beiti sér fyrir úttekt á því hvað það mundi kosta þannig að menn gætu gert sér grein fyrir því hver kostnaðurinn væri og hver ávinningurinn væri á móti þeim kostnaði þannig að ef það skref yrði stigið að gera slíka úttekt þá teldi ég það verulegan ávinning.

Það er ljóst að ef hæstv. ráðherra hefur stuðning ríkisstjórnarinnar til sinna áforma sem ég efa ekki þá verða verulegar breytingar á afhendingaröryggi á næstu tveimur til þremur árum og sérstaklega í ljósi jarðganganna sem eru áformuð, annars vegar þeim sem byrjað verður á væntanlega innan fárra vikna og svo hinna sem áformað er að byrja á árið 2010 (Forseti hringir.) milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.