135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum.

491. mál
[15:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að það kæmi svo í ljós hvort iðnaðarráðherra og byggðaráðherra hefði stuðning ríkisstjórnarinnar. Það verður bara að koma í ljós og ég vænti þess þá að það komi stuðningur frá hv. þingmönnum við þetta.

Þegar ég varð iðnaðarráðherra og fór að skoða þessi mál þá setti ég mál upp í ákveðna forgangsröð og þetta var númer tvö á mínum forgangslista. Númer eitt var ákveðið smáverkefni sem búið er að leysa sem var mjög brýnt.

Það er einfaldlega alveg ljóst að ef menn ætla sér að halda byggð á Vestfjörðum til framtíðar þá verður að leggja í kostnað við grunngerð af þessu tagi. Þetta eru einmitt aðgerðir sem ég vil sem byggðaráðherra beita mér fyrir, þ.e. sem varða uppbyggingu grunngerðarinnar.

Ég vek eftirtekt hv. þingmanna á því að auðvitað tengist þetta líka breytingum á öðrum grunngerðum. Ástæðan fyrir því að ég segi við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að ég sé fylgjandi leið 1 og ég hafi efasemdir um þessa hugmynd sem hv. þingmaður var með hérna áðan byggir á því að það er verið að ráðast í jarðgöng sem allt í einu opna nýja möguleika í raforkudreifingunni, þ.e. það er hægt að nota göngin til Bolungarvíkur til þess að bæta verulega á þeim kafla öryggi í orkuafhendingu.

Þegar jarðgöngin koma milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar þá er alveg klárt að þar kemur stór spölur yfir erfiðan hjalla sem skiptir virkilega máli fyrir dreifikerfið þannig að svona heldur þetta nú allt saman hvað í annað. Ég er því þeirrar skoðunar að með því að nota þessi göng milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, setja þar jarðstreng, setja upp þessa aðveitustöð, bíða eftir jarðgöngunum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og setja jarðstreng þar, síðast en ekki síst að leggja í jörðu strenginn á ákveðnum köflum þar sem bara reynslan sýnir að það er algjörlega óviðunandi að hafa þetta með núverandi formi þá erum við strax komin mjög nálægt okkar marki. Þegar við bætist síðan að bæta orkuvinnslu á Vestfjörðum þó ekki væri nema með 5 megavöttum við Mjólkár, jafnvel tveimur, ég tala nú ekki um þau 20 sem hv. þingmaður stakk upp á hér fyrr í dag, þá erum (Forseti hringir.) við bara komin í býsna góð mál og getum farið að setja upp stórfyrirtæki á Vestfjörðum án þess að okkur verði snautt um orku.