135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

evruvæðing efnahagslífsins.

440. mál
[15:12]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni mikið vel fyrir þessa efnismiklu spurningu sem ég ætla að freista þess að svara á þessum fáu mínútum. Það er alveg ljóst að óformleg eða sjálfvirk evruvæðing hefur verið að eiga sér stað á Íslandi á undanliðnum árum. Mikill vaxtamunur á milli íslensku krónunnar og lágvaxtasvæðanna hefur kallað hana fram og við höfum verið býsna varnarlaus gagnvart þessari þróun og hún hefur sumpart haft býsna alvarlegar afleiðingar fyrir peningastjórnina og við sjáum það akkúrat þessa dagana. Þessi sjálfkrafa evruvæðing eða fjölmyntavæðing er af flestum sérfræðingum talinn versti kostur okkar Íslendinga í gjaldeyrismálum. Í þessu sambandi vísa ég til dæmis til skýrslna Friðriks Más Baldurssonar og Richard Portes, greiningar Dresner Kleinwort á valkostum Íslendinga í gjaldeyrismálum og nýútkominnar bókar Eiríks Bergmanns Einarssonar og Jóns Þórs Sturlusonar um evruna.

Þess vegna er mjög mikilvægt að stjórnvöld fylgist verulega náið með þessari þróun sem fyrirspyrjandi vísar til og séu á varðbergi gagnvart neikvæðum áhrifum og slík áhrif geta verið margs konar á mörgum sviðum. Færsla bókhalds og ársreikninga og útgáfa á viðskiptum með hlutabréf, útlán fjármálastofnana til fyrirtækja og heimila og laun í erlendri mynt eru dæmi um helstu svið efnahagslífsins þar sem evran hefur verið að sækja mjög í sig veðrið hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Sérfræðingar Seðlabanka Íslands svöruðu áhyggjum manna af fyrstu tveimur þáttunum með ágætum hætti í peningamálum í fyrra og niðurstaðan varð sú að uppgjör í erlendri mynt og viðskipti með hlutabréf valda ekki sérstökum erfiðleikum með framkvæmd peningastefnunnar. Öðru máli gegnir um áhrif stóraukinna útlána í erlendri mynt og ekki síður því að fyrirtæki eru í auknum mæli farin að greiða laun í erlendri mynt einkum evrum.

Viðskiptaráðuneytið hefur brugðist við þessum margháttuðu spurningum sem og öðrum tengdum með því að kalla eftir ítarlegri rannsókn á þessu sviði. Ráðuneytið gerði samkomulag þar við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Evrópufræðasetur þessara stofnana þar sem við lögðum til að skoðuð yrðu áhrif mismunandi tenginga við evru á ofangreinda þætti. Meginspurningarnar voru tvær, hvort á Íslandi sé að verða til fjölmyntarsamfélag og hvaða áhrif það hefur á markað og samfélag — beint út af spurningu þingmannsins — og hvaða afleiðingar ólíkar tengingar evru hafa á íslenskan fjármálamarkað og fjármálastöðugleika og það hvaða kosti við höfum í myntmálum eins og þingmaðurinn kallaði hérna sérstaklega eftir áðan.

Það hefur verið fjallað töluvert um afleiðingar evruvæðingar á hagstjórnina og þá einkum peningamálin, hagsveiflur, verðlag og slíka þætti, minna um fjármálastöðugleikann. Síðustu mánuði hefur skapast nokkuð litrík umræða um einhliða upptöku á öðrum miðlum. Einhliða upptaka á evru hefur verið hafnað afdráttarlaust af talsmönnum evrópska seðlabankans út af því að það sé ekki pólitískur valkostur. Það sem ég sagði um daginn var að það ætti að sjálfsögðu að skoða hluti eins og EMR II sem er myntsvæði, nokkurs konar biðsalur á undan aðild að myntbandalaginu beint.

Hins vegar held ég að það verði aldrei valkostur fyrr en við höfum a.m.k. sótt um aðild þannig að aðildarumsókn eða full aðild sé alltaf forsenda þess að við beintengjumst evrusvæðinu hvort sem það er tenging við evru með vikmörkum upp og niður eins og EMR II svæðið mundi hafa í för með sér. En ég er alveg sannfærður um að við þyrftum fyrst að hafa sótt um aðild. En það er hins vegar sjálfsagt að skoða kostina, alveg sjálfsagt mál.

Engin mynt er nærri því eins mikilvæg í milliríkjaviðskiptum okkar og evran og lætur nærri að helmingur okkar viðskipta séu við evruvædd lönd. Þess vegna hefur evran verið í þessum meginpunkti umræðunnar um aðra gjaldmiðla. Meginávinningurinn af því að taka upp aðra mynt er að draga úr gengisáhættu í viðskiptum og fjárfestingu. Upptaka norsku krónunnar eða svissneska frankans mundi ekki draga úr þessu gengisflökti þegar á heildina yrði litið og því ávinningurinn minni en af upptöku evrunnar. Það er því ekki tilviljun að mest hefur verið rætt um evruna. Það er út af því að svo mikill hluti viðskipta okkar er í evrum.

Ókostir við einhliða upptöku evru eiga að sjálfsögðu við einhliða upptöku annarra mynta og sá er kannski stærstur að það yrði mikil spurning um aðgengi íslenska fjármálakerfisins að lausafé og óvíst væri um hinn svokallaða lánveitanda til þrautarvara sem skiptir fjármálafyrirtækin gríðarlega miklu máli. Þess vegna hefur umræðan af okkar hálfu verið sú að kostirnir í stöðunni séu tveir, óbreytt ástand, sú peningastefna sem við búum við, eða aðild eða aðildarumsókn að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.

Þó stuðningur við upptöku evru á Íslandi sé mikill verður hún varla tekin úr sambandi við aðild þó það sé sjálfsagt mál að skoða þennan sértæka kost úr frá þessari grein í Morgunblaðinu sem þingmaðurinn nefndi um myntsvæðið EMR II. En ég held að það kæmi út úr þeirri skoðun að við yrðum fyrst að hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu þannig að það breytir ekki þeirri stöðu.

Forsendur gjaldmiðilsbreytinganna eru örugglega umsókn eða full aðild að Evrópusambandinu. Hugsanleg aðild að EMR II þar sem við gætum tengt gengið með vikmörkum yrði líklega alltaf samt að hafa fylgt aðildarumsókn. Þann kost á að sjálfsögðu að (Forseti hringir.) skoða og það var það sem ég sagði í fréttunum um daginn.