135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Vaðlaheiðargöng.

369. mál
[15:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var rétt að mikið var rætt um Vaðlaheiðargöng í síðustu kosningabaráttu. Hugmynd um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng var sett fram af þingmönnum Samfylkingarinnar og frambjóðanda Samfylkingarinnar.

Ég tók hins vegar eftir því að Framsóknarflokkurinn tók aldrei undir það mál. Framsóknarflokkurinn vildi alltaf hafa göngin með veggjaldi. (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn vildi alltaf hafa þau með veggjaldi þannig að ég er hér kannski að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins um gjaldskylduna. Ekki tók forustumaður Framsóknarflokksins í kjördæminu undir þessa tillögu, þessa skoðun og þessi atriði. (Gripið fram í: Það tók enginn.) Það tók enginn undir það þannig að þá ætti nú að vera fín samstaða um þetta mál. Í öðru lagi er þetta sem sagt í raun og veru stefna Framsóknarflokksins.

Í þriðja lagi skil ég ekki hvað hv. þingmaður var að tala um varðandi sjálfstæðismenn á síðasta kjörtímabili. Það var einn fundur sem við þurftum að eiga með hæstv. forsætisráðherra, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og með formanni Samfylkingarinnar. Þá var málið afgreitt.

Sjálfstæðismenn hafa alltaf barist fyrir þessu máli og þetta er komið á framkvæmdastig rétt níu mánuðum eftir að ríkisstjórnin var mynduð sem sýnir áhuga þeirra á málinu. Það hlýtur að vera dugleysi Framsóknarflokksins í síðustu ríkisstjórn um að kenna að málið komst ekki lengra en það gerði á þeim tíma.

Virðulegi forseti. Það er margt sem mætti ræða um þetta og stundum leggja menn mikið undir. Í póker vill maður helst alltaf enda með fullt hús eða hvað það heitir. Stundum ná menn því ekki og fá kannski bara tvær drottningar og tvær tíur. Stundum þurfa menn að pakka og hætta. Þannig er það bara og náðst hefur fínn árangur. Verkið er komið á framkvæmdastig og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kemur hér (Gripið fram í.) og þakkar ríkisstjórninni fyrir að það skuli vera komið svo langt eins og önnur stórátaksverkefni (Forseti hringir.) í samgöngum sem verið er að vinna vítt og breitt um landið.