135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

veglagning yfir Grunnafjörð.

405. mál
[18:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum er aðalskipulag háð staðfestingu umhverfisráðherra. Skipulagsstofnun gerir tillögu til umhverfisráðherra um staðfestingu svæðisskipulagsins, synjun eða frestun á staðsetningu að öllu leyti eða að hluta. Í staðfestingarhlutverki ráðherra felst athugun á lögmæti viðkomandi skipulagstillögu, þ.e. könnun á því hvort ákvarðanir sveitarstjórnar um skipulagstillöguna hafi verið í samræmi við lög og séu byggðar á lögmætum sjónarmiðum.

Aðalskipulag Leirár- og Melahrepps annars vegar og Skilmannahrepps hins vegar komu til afgreiðslu umhverfisráðherra árið 2006. Í skipulagstillögunum var gert ráð fyrir lagningu vegar yfir Grunnafjörð sem er friðlýst svæði. Eftir ítarlega yfirferð varð það niðurstaða ráðuneytisins að hafna staðfestingu þess hluta skipulagsáætlananna er tók til vegar yfir Grunnafjörð en staðfesta þær að öðru leyti. Var það í samræmi við tillögu Skipulagsstofnunar.

Grunnafjörður var friðlýstur með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda árið 1994. Samkvæmt reglum friðlandsins er allt jarðrask á friðlandinu óheimilt. Umhverfisstofnun getur að fengnum tillögum umsjónarnefndar friðlandsins heimilað framkvæmdir ef knýjandi ástæður eru til, enda stofni þær ekki gróðri og dýralífi svæðisins í hættu. Jafnframt er samkvæmt reglum friðlandsins óheimilt að raska sjávarföllum í friðlandinu. Umhverfisstofnun getur, að fenginni umsögn umsjónarnefndar friðlandsins, veitt undanþágur frá ákvæðum friðlýsingarinnar, samanber 8. gr. reglnanna.

Í athugasemdum Umhverfisstofnunar um auglýsta tillögu að aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps og svo Skilmannahrepps kom fram að Grunnafjörður sé eitt mikilvægasta votlendissvæði Íslands. Svæðið er eitt af þremur svæðum á landinu sem tilkynnt hefur verið til alþjóðlegrar skrár um verndun votlendis sem komið var á fót á grundvelli Ramsar-samþykktarinnar um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi einkum fyrir fuglalíf. Lagðist Umhverfisstofnun í athugasemdum sínum gegn því að gert væri ráð fyrir vegi yfir Grunnafjörð.

Samkvæmt 38. gr. laga um náttúruvernd þarf leyfi Umhverfisstofnunar til framkvæmda þar sem hætta er á að spillt verði friðlýstum náttúruminjum. Eins og áður segir er allt jarðrask í friðlandinu óheimilt samkvæmt reglum friðlandsins nema að fenginni undanþágu Umhverfisstofnunar. Þar sem engar slíkar undanþágur höfðu verið veittar og fyrir lá að Umhverfisstofnun legðist gegn veglagningunni var það mat ráðuneytisins að umrædd veglagning færi í bága við ákvæði friðlýsingarinnar. Ráðuneytið taldi því ekki unnt að staðfesta þann hluta skipulagstillögunnar er varðaði fyrirhugaða veglínu yfir Grunnafjörð.