135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

veglagning yfir Grunnafjörð.

405. mál
[18:07]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér vegarstæði á Vesturlandi, á milli Akraness og Borgarfjarðar fyrst og fremst, og hvort hægt er að fara með þann veg yfir Grunnafjörð. Ég hef raunar frá því að þessi umræða hófst talið að spurningin um það hvar leggja ætti þennan veg hafi verið byggð á röngum forsendum, þ.e. ég hefði viljað fá svar við þeirri spurningu frá samgönguyfirvöldum og umhverfisyfirvöldum: Er hægt að leggja veg framan við Grunnafjörð þannig að það raski ekki lífríkinu, þrengi ekki að streymi um mynnið, flóði og fjöru, og auka þar með öryggi fyrir þetta svæði? Ég hef svolitlar áhyggjur af því að farið er yfir tvö, þrjú eða fjögur vatnsföll á leiðinni Akranes – Borgarnes, á leiðinni í kringum Grunnafjörð og ef einhver alvarleg slys yrðu, eins og olíuslys við Laxá þá yrði miklu meiri hætta af því en ef brúin væri framan við mynni Grunnafjarðar. (Forseti hringir.)

Ég vona að málið verði skoðað áfram í framhaldinu þó að ég hafi engar athugasemdir við afgreiðslu hæstv. ráðherra miðað við þá kynningu sem hér átti sér stað.