135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

veglagning yfir Grunnafjörð.

405. mál
[18:11]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Grunnafjörður er eitt af þremur Ramsar-svæðum sem Ísland hefur tilnefnt til svokallaðrar Ramsar-skrár um verðmæt votlendissvæði sem eru sérstaklega verðmæt á alþjóðlegan mælikvarða sérstaklega fyrir fuglalíf. Það skiptir máli ef stjórnvöld eru á annað borð að tilnefna svæði á svona skrár og stunda náttúruvernd sem á að standa undir nafni að menn standi við það sem þeir segjast ætla að gera. Við höfum einungis þrjú svæði á þessari skrá. Eins og allir vita eru mörg fleiri votlendissvæði á Íslandi mjög verðmæt á alþjóðlega vísu, leirurnar með fuglalífið, einstakar í sinni röð. Það skiptir máli þegar svæði eru friðlýst að stjórnvöld, að yfirvaldið meini eitthvað með því. Við höfum margoft horft upp á það að friðlýsingum er breytt með einu pennastriki af því að einhverjir aðrir hagsmunir en náttúruverndarhagsmunir eru vegnir þyngri af þeim sem taka þær ákvarðanir.

Vegna þess sem hv. þm. Herdís Þórðardóttir sagði um Gilsfjörðinn og Kolgrafarfjörðinn þá man ég ekki betur en að brúarlagning yfir Gilsfjörð hafi ekki orðið til góðs fyrir lífríkið í firðinum og að gera hafi þurft betrumbætur á því og menn hafi í ljósi reynslunnar gengið miklu betur til verks í Kolgrafarfirði. Það er ekki einfalt mál að leggja brýr yfir svona viðkvæm svæði og við getum haft uppi alls kyns kenningar um það hvar verst sé að lenda í vondu slysi. Vissulega væri það mjög alvarlegt ef olíubíll færi út af veginum en eru það endilega gildustu rökin í þessum efnum? Svæðið er friðlýst og ef við ætlum að taka friðlýsingar alvarlega ber okkur að fylgja þeim fram.