135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

undanþága frá skattlagningu á mengun frá flugvélum.

413. mál
[18:16]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Markaði Evrópusambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda var komið á fót í ársbyrjun 2005. Hann er stærsti markaður af þessu tagi sem til er. Viðskiptakerfið byggir á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins frá árinu 2003 og náði í upphafi til losunar koldíoxíðs frá um 10.000 fyrirtækjum í iðnaði og orkuframleiðslu.

Viðskipti með losunarheimildir skapa atvinnurekstri sveigjanleika og hagræði við aðgerðir til þess að draga úr losun og gert er ráð fyrir að virkir kolefnismarkaðir komi til með að gegna meginhlutverki á næstu árum og áratugum í baráttunni við að ná tökum á loftslagsbreytingunum.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á mikilvægi viðskipta með losunarheimildir í þeim viðræðum sem nú eru hafnar um framtíðarsamkomulag í loftslagsmálum, m.a. til að tryggja sem best hagkvæmni aðgerða til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Tilskipunin um viðskiptakerfið var hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið 26. október síðastliðinn. Hér á landi falla varaaflstöðvar og fiskimjölsverksmiðjur undir gildissvið tilskipunarinnar enn sem komið er. Þar sem losun frá þessari starfsemi hefur verið mjög lítil undanfarin ár var samið um íslenska aðlögun sem miðast við að ofangreind starfsemi lúti ekki ákvæðum tilskipunarinnar fari losun koldíoxíðs frá einstakri starfsemi ekki yfir 25.000 tonn á ári. Tilskipunin mun hins vegar taka gildi ef ný starfsemi hefst hér á landi sem fellur undir gildissvið hennar og fer yfir 25.000 tonna markið.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er veruleg og hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Í Kyoto-bókuninni eru ekki tölulegar skuldbindingar vegna samgangna á landi, með flugi eða á sjó. Ákvörðun Evrópusambandsins um að fella flugsamgöngur undir viðskiptakerfið er hluti af þeim breytingum á kerfinu sem sambandið vinnur að.

Komið hafa fram áhyggjur íslenskra stjórnvalda og hagsmunaaðila af því að áhrif þess að fella flug undir tilskipunina verði hlutfallslega meiri á Íslandi en almennt í ríkjum Evrópusambandsins þar sem ekki er völ á öðrum kostum í millilandaferðum Íslendinga. Mikilvægt er að undirstrika að þessi tilskipun verði ekki til þess að samkeppnisstaða Íslands eða aðstæður Íslendinga til ferðast landa á milli verði skertur eða samkeppnisstaðan skert meira en annars staðar í Evrópu. Um það snýst í raun málið.

Staða málsins er sú að stefnt er að því að afgreiða tilskipunina undir formennsku Slóveníu á sumri komanda. Ef það tekst ekki er næsta víst að það verður gert síðari hluta ársins undir formennsku Frakklands. Stýrihópur sem hæstv. samgönguráðherra hefur skipað vinnur að því að meta hugsanleg áhrif innleiðingar tilskipunarinnar á útblásturskvóta fyrir flug hér á landi og undirbúa þannig afstöðu Íslands á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins eða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Þessi hópur er að störfum. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili til hæstv. samgönguráðherra í maí. Í framhaldi af þeirri athugun verður tekin afstaða til þess hvort semja þurfi eða hvort yfirleitt sé hægt að semja um sérstaka aðlögun fyrir Ísland að upptöku tilskipunarinnar inn í EES-samninginn.

Við þetta er kannski að bæta að í málflutningi sínum á vettvangi eða í viðræðum við Evrópusambandið, m.a. við Stavros Dimas, framkvæmdastjóra umhverfismála hjá Evrópusambandinu, hefur Ísland lagt áherslu á að við séum ekki andsnúin markmiðum tilskipunarinnar um að takmarka losun frá samgöngum. Tilskipunin getur haft jákvæð áhrif víða á meginlandinu og m.a. þau áhrif að lestarsamgöngur verði nýttar í stað flugs á skemmri leiðum og þar með dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við viljum hins vegar að árangurshagkvæmni og sanngirni sé gætt í innleiðingu tilskipunarinnar. Við höfum því komið sjónarmiðum okkar á framfæri við Evrópusambandið og innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að hér er beðið um ákveðna aðlögun að tilskipuninni. Hún hefur með legu landsins að gera, að Ísland sé eyja í Norður-Atlantshafi og það hvernig losunarkvóti fyrir flug hittir fyrir hinn almenna borgara á Íslandi. Það eru meginsjónarmið íslenskra stjórnvalda í þessu máli.