135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

háskóli á Ísafirði.

[10:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það hefur um nokkurra ára skeið verið mikið baráttumál Vestfirðinga að koma á fót háskóla á Ísafirði. Sú stefna hefur átt vaxandi fylgi að fagna heima í héraði og er nú svo komið að allir stjórnmálaflokkar hafa gert það að stefnumáli sínu að koma á fót háskóla á staðnum.

Það hafa hins vegar verið, við skulum segja efasemdir, svo ekki sé fastar að orði kveðið, hjá hæstv. menntamálaráðherra í því máli. Síðast var skipuð nefnd undir forustu hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur til að komast að niðurstöðum í því máli og hún átti að skila af sér fyrir allnokkru en ekkert hefur til þess spurst hverjar tillögur nefndarinnar eru eða hver áform menntamálaráðherra eru í því að mæta þeim sjónarmiðum sem njóta jafnvíðtæks stuðnings.

Ég vil því inna hæstv. menntamálaráðherra eftir afstöðu hennar til málsins. Er ráðherrann að vinna að því að koma á fót háskóla á Vestfjörðum, sjálfstæðum háskóla eða háskóla í samstarfi við aðra háskóla, eða er hæstv. menntamálaráðherra að vinna að einhverju öðru markmiði í þeim efnum? Og hvað líður því að þær tillögur sem umrædd nefnd hefur komist að niðurstöðu um verði gerðar opinberar — ef þær upplýsingar eru réttar, sem ég hef, að nefndin hafi komið fram með tillögur sínar?