135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

heilbrigðisþjónusta á Hornafirði.

[10:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Eins og kemur fram í máli þingmannsins er hér um að ræða samstarfsverkefni milli sveitarfélags og ríkisvaldsins á sviði heilbrigðis- og öldrunarmála. Við höfum lagt áherslu á að reyna að efla það og erum í rauninni búin að vera í viðræðum frá síðasta sumri við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um aukna samvinnu á því sviði og sameiningu á milli heimahjúkrunar og heimaþjónustu. Við höfum líka skoðað ýmsa fleiri þætti.

Það liggur fyrir, þegar menn skoða þessi mál almennt, að æskilegra væri að sveigjanleikinn væri meiri þegar kemur að þessu. Miðað við þá ramma sem eru til staðar þá eru það oft módel sem ganga kannski ekki alveg nógu vel upp miðað við aðstæður á hverjum tíma. Það er nákvæmlega sú staða sem er uppi þegar við ræðum samskipti á milli sveitarfélagsins Hornafjarðar og heilbrigðisráðuneytisins. Fyrir liggur skýr vilji hjá okkur að reyna að ná góðri niðurstöðu í þetta. Við teljum að góð reynsla sé af þessu samstarfi en við þurfum hins vegar að leggja svolítið á okkur til að geta sniðið þetta að þörfum sveitarfélagsins með það að markmiði að þjónustan verði sem best.

Ég hafði hugsað mér að hitta forsvarsmenn sveitarfélagsins í dag á Hornafirði en af því gat ekki orðið. Við eigum hins vegar von á því að fá fulltrúa þeirra í næstu viku til að fara yfir málið út frá nýjum grunni sem menn í ráðuneytinu hafa verið að hugsa upp. Ég er vongóður um að við náum góðri lendingu í þessum málum sem og öðrum í samvinnu við önnur sveitarfélög í landinu.