135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

heilbrigðisþjónusta á Hornafirði.

[10:43]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um markmið í þessu. Fyrir mér er málið einfalt. Þetta snýst um þjónustu við fólk og einu gildir fyrir viðkomandi einstaklinga, sem þurfa á þjónustu að halda, hvort hún er veitt af hálfu ríkisins eða sveitarfélagsins. Það er okkar sem höldum um stjórnvölinn á þessum hlutum að koma málum þannig fyrir að þjónustan sé sem best, sem einföldust og sem skilvirkust, og það þýðir samvinnu á milli aðila. Menn geta ekki beðið eftir því að menn nái einhverri niðurstöðu í verkaskiptingamál. Menn þurfa að ganga í þessi verk strax og það er það sem við höfum gert.

Við þurfum að horfa með opnum huga á það hvernig við getum haft sveigjanleika í samningaviðræðum sem þessum, að lagaumhverfið veiti okkur þann sveigjanleika að við getum sinnt þessu sem best. Það liggur fyrir að það er ákveðið flækjustig í þessu, og við skyldum ekki horfa fram hjá því, en ég er sannarlega vongóður um að við getum náð góðri lendingu sem fyrst.