135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

Gjábakkavegur.

[10:46]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Varðandi síðasta atriðið er rétt að það komi strax fram að við höfum verið hlynnt því og hefur bæði Þingvallanefnd og líka heimsminjanefndin hér heima verið hlynnt því að svo verði.

Varðandi Gjábakkaveginn sjálfan þá er rétt að taka fram að hann er ekki skipulagður innan þjóðgarðs og hann brýtur þar af leiðandi ekki gegn skráningu þjóðgarðsins á Þingvöllum inn á heimsminjaskrá UNESCO. Hann er ekki skipulagður innan þjóðgarðsins svo það komi fram.

Hins vegar má í sjálfu sér taka undir það, sem ég vil kannski greina frá hinu sem kom fram í máli hv. þingmanns, að það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni þegar verið er að framkvæma veglagningu í kringum þetta viðkvæma og merkilega svæði sem er merkilegt fyrir margra hluta sakir, ekki eingöngu út af menningarsögunni sem tengist staðnum heldur ekki síður út af þeirri vatnsvernd sem er á vatninu á Þingvallasvæðinu. Það verður að stíga afar varlega til jarðar og það mætti kannski leysa það vandamál eða viðfangsefni sem hv. þingmaður kemur hér inn á ef samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins mundu sammælast um að breyta veglagningunni.