135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

Gjábakkavegur.

[10:48]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra þessi svör og ég fagna þeirri yfirlýsingu að menn vilji að náttúra Þingvalla verði einnig tilnefnd á heimsminjaskrá UNESCO. Ég skora á ráðherrann og hæstv. umhverfisráðherra að hrinda því verkefni af stað hið fyrsta.

Ég tek líka undir þá tillögu og þá áskorun á hæstv. samgönguráðherra að taka nú af skarið og breyta þessari vegalagningu áður en meiri skaði hlýst af. Það er einfaldlega ekki hægt eða forsvaranlegt að skella skollaeyrum við viðvörunarorðum manns eins og dr. Péturs M. Jónassonar sem hefur varið ævistarfi sínu í rannsóknir á Þingvallavatni og bendir á hversu hættulegt þetta muni verða vatnasviðinu, hrygningarstöðvum í vatninu og öllum vatnsbúskapnum. Það er því mjög brýnt að á þessu verði tekið og ég tek undir orð (Forseti hringir.) ráðherra og fagna þeim.