135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

aukið álag á heilsugæsluna.

[10:53]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessi svör. Ég vil taka það fram að ég tel að þessi reglugerðarbreyting varðandi börnin og komugjaldið hafi verið góð og ég vil segja það af þessu tilefni. En ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgst verði með hvaða áhrif þetta hefur og eins og ég sagði í framsögu minni að fylgst verði með rekstrarkostnaði heilsugæslunnar og brugðist við ef á þarf að halda vegna þess að heilsugæslan er hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar og það verður að búa svo um hnútana að hún hafi fjármagn til að sinna þeirri þjónustu sem henni ber samkvæmt lögum og reglum og er ætlað að veita.