135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

aukið álag á heilsugæsluna.

[10:54]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns. Menn þurfa að hafa það í huga að við byggjum heilbrigðisþjónustu okkar þannig upp að heilsugæslan er fyrsti viðkomustaðurinn og það er mjög mikilvægt að þar sé öflug og góð þjónusta.

Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að við þurfum að fylgjast vel með því hvernig þjónustunni og gæðum hennar er háttað á heilsugæslustöðvum, ekki bara hvað þetta varðar heldur alla þá þætti sem við viljum fylgjast með og getum best greint. Það er nokkuð sem við höfum verið að vinna að, við erum með sérstakan hóp undir forustu Guðjóns Magnússonar sem er að skoða heilsugæsluna almennt og þær mismunandi útfærslur sem hafa verið farnar varðandi heilsugæsluna og meta árangurinn af þeim og hvernig við getum gert góða þjónustu enn betri.

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og er ánægður með þau sjónarmið sem komu fram hjá honum.