135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðistjórnarkerfið.

[10:55]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Í fyrrahaust sendi mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna frá sér álit sem kvað á um að Íslendingar hefðu brotið mannréttindi með ríkjandi fiskveiðistjórnarkerfi. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur áður lýst því yfir í þinginu að hann taki þetta álit alvarlega og það verði brugðist við því. En tíminn líður hratt og fresturinn sem okkur gefst til að svara eða bregðast við þessu áliti rennur fljótlega út. Mér er ljóst að ekki verður ráðist í neina byltingu á fiskveiðistjórnarkerfinu á þessum stutta tíma en engu að síður sitjum við Íslendingar uppi með ígildi dóms um mannréttindabrot (Gripið fram í.) sem við þurfum að bregðast við. Álits, afsakið. Og ég tel að heiður okkar og ábyrgð sé undir því komið.

Því er spurt um hvað líði viðbrögðum hæstv. ríkisstjórnar. Ég geri fastlega ráð fyrir að unnið sé að þessu máli í viðkomandi ráðuneyti. Getur hæstv. ráðherra upplýst þingheim um stöðu málsins, hvaða lausnir hann sér til úrbóta og hvað hann vill gera til að þvo þann blett af okkur að við virðum ekki mannréttindi?