135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðistjórnarkerfið.

[10:59]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel auðvitað alveg sjálfsagt að minna á þetta mál og halda því vakandi. Ég vil í því sambandi vekja athygli á að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur ítrekað á fundum sínum farið yfir þessi mál, einnig hefur hún kallað til sín ýmsa sérfræðinga til að glöggva sig á málinu og jafnframt rætt málin við hagsmunaaðila eins og vera ber.

Um þetta álit voru auðvitað skiptar skoðanir og það var ekkert alveg einboðið með nákvæmlega hvaða hætti ætti að bregðast við því en það er hins vegar augljóst að okkur ber að gera það. Í sjálfu sér er álit mannréttindanefndarinnar endanlegt. Það er ekkert í svari okkar sem mun breyta álitinu. Það er ekki um það að ræða að verið sé að kalla eftir skoðun okkar til þess að það hafi síðan einhver áhrif á frekari vinnu nefndarinnar í þeim skilningi. Það sem við munum því fyrst og fremst leggja fyrir nefndina er annars vegar fræðileg útlistun á málinu sem við munum reyna að fara vel ofan í og síðan að kynna nefndinni þær (Forseti hringir.) ákvarðanir sem við kunnum að taka.